„Var ekki kjörinn til 2030“

Helgi Hjörvar, þingflokksformaður Samfylkingarinnar.
Helgi Hjörvar, þingflokksformaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Ómar Óskarsson

Þingflokksformaður Samfylkingarinnar gagnrýndi Sigurð Inga Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, á Alþingi í dag fyrir að gefa út yfirlýsingar um allt að 15 ára samninga við landbúnaðinn um niðurgreiðslur landbúnaðarvara. Ríkisstjórnin hefði ekki lýðræðislegt umboð til þess að ákveða hvernig haldið yrði á landbúnaðarmálum landsins næstu 15 árin.

„Hæstvirtur landbúnaðarráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson var ekki kjörinn til ársins 2030. Þegar hann gefur yfirlýsingar um allt að 15 ára samninga við landbúnaðinn vekur það þess vegna ákveðnar spurningar um fyrirætlanir ráðherrans. Það er ástæða til að árétta að núverandi ríkisstjórn hefur ekki lýðræðislegt umboð til að festa óbreytta landbúnaðarpólitík í sessi til 15 ára,“ sagði Helgi Hjörvar. Fjárveitingarvaldið þyrfti að koma að slíkum ákvörðunum. Hitt væri svo annað mál að samningar um slíkar niðurgreiðslur hefðu til þessa verið til of langs tíma.

„Þær hafa verið fram yfir einar alþingiskosningar og má nánast segja að með því hafi lýðræðið að hluta verið tekið úr sambandi. Menn hafa í raun og veru þurft að sigra í tvennum alþingiskosningum í röð til að geta komið fram lýðræðislegum breytingum á því atriði. En þegar menn eru farnir að tala um tollverndina í langtímasamningum vakna áhyggjur vegna þess að tolla geta menn ekki samþykkt á einu þingi mörg kjörtímabili fram í tímann. Jafnvel þó að þeir fyndu leið til þess að lögum er það ekki í neinu samræmi við lýðræðishefð okkar og þá ríku áherslu sem við höfum lagt á að fjárveitingarvaldið á hverjum tíma er hjá Alþingi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert