Fúsi valin á Tribeca hátíðina

Fúsi hefur verið valin til keppni á Tribeca kvikmyndahátíðinni.
Fúsi hefur verið valin til keppni á Tribeca kvikmyndahátíðinni.

Kvikmyndin Fúsi í leikstjórn Dags Kára hefur verið valin til keppni á hinni virtu Tribeca kvikmyndahátíð. Fúsi mun taka þátt í „World Narrative“ keppni hátíðarinnar sem fram fer í New York dagana 15. til 26. apríl.

„Við fengum boð um þetta eftir frumsýninguna í Berlín núna í febrúar og erum við mjög kát með að hún fari í keppni þar. Stjórnandi hátíðarinnar sá myndina í Berlín og var voða hrifinn af henni þannig við erum mjög kát,“ segir Agnes Johan­sen, fram­leiðandi mynd­ar­inn­ar.

Fúsi verður frumsýnd hérlendis þann 27. mars næstkomandi en ekki fyrr en í sumar eða haust í öðrum löndum.

„Við fengum ótrúlega góðar viðtökur í Berlín þannig það er alveg ljóst að hún fer á gott flakk og þegar er búið að selja hana víða,“ segir Agnes. Hún segir að mikill spenningur sé fyrir Fúsa erlendis og þessi tilnefning eigi eftir að beina kastljósinu að myndinni enn frekar.

Mynd­in hef­ur þegar fengið já­kvæða dóma gagn­rýn­enda og verið seld til Þýska­lands, Frakk­lands, Belg­íu, Hol­lands, Lúx­em­borg­ar, Ungverjalands og Bras­il­íu en hún keppti í flokki mynda sem voru sérstaklega valdar af stjórnendum hátíðarinnar á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Berlín.

„Hún er núna að byrja á hátíðarflakkinu sínu. Verður í Belgrad og á sýningu í Kaupmannahöfn í apríl,“ segir Agnes. Þá er búið að óska eftir myndinni til sýningar í Hong Kong. „Það sem okkur þykir mjög spennandi líka er að það er verið að kaupa hana til sýningar sem gefur okkur góða von um að hún nái góðu flugi,“ segir Agnes.

Frétt mbl.is: Vel tekið á móti Fúsa
Frétt mbl.is: Fúsi sagður óvæntur gimsteinn

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert