Grýla og lögregla algengt hræðsluefni

32% aðspurðra sögðust hafa verið hræddir með einhverju, m.a. Grýlu …
32% aðspurðra sögðust hafa verið hræddir með einhverju, m.a. Grýlu og lögreglunni. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Tæplega 70% allra viðmælenda í rannsókn Félagsvísindastofnun HÍ sögðu frá reynslu af einu eða fleiri af 8 tilgreindum formum andlegs ofbeldis í æsku á meðan rúmlega einn af hverjum 10 viðmælendum taldi sig hafa upplifað vanrækslu í æsku.  Þetta kemur fram í grein þeirra Jónínu Einarsdóttur mannfræðingi og Geir Gunnlaugssyni lækni sem birtist í nýjasta tölublaði Læknablaðsins.

Í greininni er sagt frá rannsókn sem gerð var árið 2010 af Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands. Markmið hennar var að skoða algengni og umfang andlegs ofbeldis og vanrækslu sem fullorðnir Íslendingar segja að þeir hafi reynslu af í æsku og hvernig hún hefði áhrif á mat þeirra á uppeldi sínu. 

Í rannsókninni voru viðmælendur beðnir um að meta uppeldi sitt og svara spurningum um reynslu af átta mismunandi formum andlegs ofbeldis og reynslu af vanrækslu í æsku. Formin átta má sjá í töflu með fréttinni. Meðalaldur viðmælenda var 46,3 ár en allir viðmælendur voru átján ára eða eldri.

Grýla og lögregla algengt hræðsluefni

Af 977 einstaklingum sem tóku þátt í rannsókninni svöruðu 11 eða 1% spurningu um reynslu af andlegu ofbeldi annaðhvort „veit það ekki“ eða neituðu að svara. Af 966 viðmælendum gáfu 663 eða 69% upp að þeir hefðu að minnsta kosti einu sinni verið beittir einu eða fleiri af átta tilgreindum formum andlegs ofbeldis. Af þeim sögðust 247 eða 37% hafa reynslu af einu formi, 304 eða 46% af 2-3 formum og 112 eða 17% af 4-8 formum andlegs ofbeldis, þar af 7 þeirra af 7-8 formum slíks ofbeldis.

Algengasta formið af ofbeldi sem viðmælendur sögðust hafa orðið fyrir var að hafa verið hræddur með einhverju, til dæmis með Grýlu eða lögreglu. 32% viðmælenda sögðust hafa orðið fyrir þess háttar ofbeldi. 

Veikindi, drykkja og fjarvera valda vanrækslu

Þegar það kemur að vanrækslu töldu 105 einstaklingar, eða 11% aðspurða sig hafa verið vanrækta í æsku en 6 svöruðu „veit það ekki“ og 15 vildu ekki svara spurningunni. Enginn tölfræðilega marktækur munur var á aldri þeirra sem töldu sig hafa verið vanræktir og þeirra sem töldu sig ekki hafa verið vanræktir. Meðalaldur þeirra sem sögðu að þeir hefðu verið vanræktir var 45,3 ár. Í greininni má sjá að konur voru 1,5 sinnum líklegri til að telja sig hafa verið vanræktar í æsku borið saman við karla. Enginn tölfræðilega marktækur munur var á uppgefinni reynslu af vanrækslu í æsku og öðrum bakgrunnsbreytum.

„Lýsingar á vanrækslu fjölluðu um foreldra og forsjáraðila sem voru veikir, drykkfelldir, mikið fjarverandi eða fráskildir og lítil tengsl við föður. Viðmælendur lýstu ennfremur mikilli ábyrgð í æsku og skorti á daglegri umönnun og stuðningi við nám,“ segir í greininni. 

Af 963 viðmælendum sem lögðu mat á uppeldi sitt töldu 807 eða 84% að það hefði verið gott, 139 eða 14% að það hefði verði ásættanlegt og 17 eða 2% að það hafi verið slæmt.

Í ályktun greinarinnar kemur fram að uppeldisaðferðum megi breyta, meðal annars með fræðslu, félagslegum stuðningi og lagasetningu.

Greinina í heild sinni má sjá hér.

8 tilgreind form andlegs ofbeldis sem spurt var um í …
8 tilgreind form andlegs ofbeldis sem spurt var um í rannsókninni. Tafla úr greininni
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert