Næsti stormur á föstudag

Vonskuveður er á Suður- og Suðvesturlandi en væntanlega gengur það niður þegar líður á daginn. Von er á næsta suðaustanstorm með úrkomu á föstudag. Suðurlandsvegur er lokaður tímabundið í austur við Þrengslagatnamót vegna umferðaróhapps.

Það er suðaustan stormur í dag með rigningu, slyddu eða snjókomu. Suðvestan hvassviðri í nótt og á morgun með éljum, segir í athugasemd á vef Veðurstofu Íslands.

Gengur í suðaustan 18-25 m/s S- og V-lands kringum hádegi með snjókomu í fyrstu, síðar rigningu eða slyddu á láglendi. Talsverð úrkoma um landið S- og SA-vert. Hægari vindur á N- og A-landi, en suðaustan 15-23 þar seint í dag og snjókoma eða slydda með köflum. Dregur úr vindi og úrkomu um tíma í kvöld og hiti þá 0 til 6 stig. Suðvestan 13-23 í nótt og á morgun og éljagangur, en yfirleitt þurrt NA- og A-lands. Hiti kringum frostmark.

Frá því um hádegi verður mjög blint verði og dimm ofanhríð á veginum austur fyrir
Fjall frá og þar til skil lægðarinnar verða farin yfir á milli kl. 17 og 18. Eins
stórhríðarveður um tíma og lítið skyggni á Vatnleið, Bröttubrekku, Svínadal og á
Holtavörðuheiðinni, sem og á sunnanverðum Vestfjörðum. Þá er reiknað með
hviðum 35-45 m/s undir Hafnarfjalli og á Kjalarnesi á frá því laust fyrir hádegi og þar
til síðdegis. Einnig á norðanverðu Snæfellsnesi.

Það eru hálka og skafrenningur á Sandskeiði og á Hellisheiði en hálka í Þrengslum. Hálka eða hálkublettir er allvíða á Suður- og Suðvesturlandi. Hálkublettir og óveður eru á Kjalarnesi, hálka og óveður er við sunnanverðan Hvalfjörð. Óveður er á Grindavíkurvegi og við Festarfjall.

Á Vesturlandi er hálka og hálkublettir. Ófært og stórhríð er á Fróðárheiði. Hálkublettir og óveður er undir Hafnarfjalli. Hálka eða snjóþekja er nánast á öllum á vegum á Vestfjörðum, þó aðeins hálkublettir á Innstrandavegi.

Á Norðurlandi er hálka, hálkublettir eða snjóþekja  á vegum.

Hálka, snjóþekja eða hálkublettir eru á vegum á Austurlandi. Greiðfært er frá Breiðdalsvík með suðausturströndinni vestur undir Öræfi en þar tekur við hálka og hálkublettir. Óveður er við Hvamm undir Eyjafjöllum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert