Sjáðu vonskuveðrið „í beinni“

Vonskuveðrið er nú komið upp að suðvesturströnd landsins eins og varla hefur farið framhjá neinum á þeim slóðum. Veðrið mun fara yfir landið í kjölfarið með tilheyrandi stormi og úrkomu. Draga mun úr vindi tímabundið í kvöld en veðrið heldur síðan áfram í nótt og á morgun. Þá er spáð öðrum stormi og úrkomu á föstudaginn. Sjá má lægðina sem veldur veðrinu í beinni á vefsíðunni www.nullschool.net.

Frá því um hádegi verður mjög blint veður og dimm ofanhríð á veginum austur fyrir Fjall þar til skil lægðarinnar verða farin yfir á milli klukkan 17 og 18 samkvæmt veðurspá fyrir Vegagerðina. Eins verður stórhríðarveður um tíma og lítið skyggni á Vatnleið, Bröttubrekku, Svínadal og á Holtavörðuheiðinni sem og á sunnanverðum Vestfjörðum. Þá er reiknað með hviðum 35-45 m/s undir Hafnarfjalli og á Kjalarnesi frá því laust fyrir hádegi og þar til síðdegis og sömuleiðis á norðanverðu Snæfellsnesi.

Samkvæmt spá Veðurstofu Íslands næsta sólarhringinn er gert ráð fyrir suðaustan 18-25 m/s sunnan- og vestanlands með snjókomu í fyrstu en síðar rigningu eða slyddu á láglendi. Talsverð úrkoma verður um landið sunnan- og suðaustanvert. Hægari vindur á Norður- og Austurlandi, en suðaustan 15-23 m/s á þeim slóðum seint í dag og snjókoma eða slydda með köflum.

Eins og fyrr segir dregur úr vindi og úrkomu um tíma í kvöld og hiti verður þá 0 til 6 stig. Hins vegar verður suðvestan 13-23 m/s í nótt og á morgun og éljagangur en yfirleitt þurrt norðaustan- og austanlands. Hiti verður þá í kringum frostmark.

Frétt mbl.is: Vonskuveður? Hvað er það?

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert