„Þetta er fullkomlega óásættanlegt“

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar.
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Kristinn

„Þetta er fullkomlega óásættanlegt,“ sagði Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, á Alþingi í dag undir liðnum fundarstjórn forseta þar sem hann gerði Lánasjóð íslenskra námsmanna að umræðuefni sínu.

Sagði hann að fréttir bærust af því að LÍN væri að breyta í grundvallaratriðum aðferðum sínum við innheimtu námslána þar sem í besta falli væri farið á svig við lög sem samþykkt hefðu verið á Alþingi um ábyrgðarmenn. Verið væri „að búa til nýjar leiðir til að halda opnum ábyrgðum á fólk sem er algjörlega grandalaust langt aftur í tímann.“ Fréttir hefðu borist í hádeginu að 8 þúsund manns hefðu fengið viðvörunarbréf frá sjóðnum. Vísaði hann til þess að fólk væri að fá tilkynningar um ábyrgðir sem það bæri í gegnum erfðamál án þess að því væri kunnugt um það.

Fór Árni fram á það að Illuga Gunnarssyni menntamálaráðherra mætti á Alþingi til að svara fyrir þetta og beindi því til Einars K. Guðfinnssonar, forseta þingsins, að hann sæi til þess. Þá vildi hann einnig óska eftir sérstakri umræðu um málið. Helgi Hjörvar, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, og Guðbjartur Hannesson, þingmaður flokksins, tóku í kjölfarið undir með Árna Páli.

Einar svaraði því til að hann myndi koma þessum skilaboðum til Illuga en hann gæti þó ekki tryggt að ráðherrann mætti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert