Tugir íbúa á hættusvæðinu

Rýma þurfti svæði 4 á Patreksfirði í dag vegna snjóflóðahættu.
Rýma þurfti svæði 4 á Patreksfirði í dag vegna snjóflóðahættu.

Jónas Sigurðsson, yfirlögregluþjónn á Vestfjörðum, segir að verið sé að rýma svæði 4, svæðið við Mýrar og Hóla á Patreksfirði þessa stundina. Það gangi hægt og bítandi þar sem nú er „leiðinda veður og ófærð“.

Líkt og greint var frá á mbl.is fyrir skemmstu hefur hættu­stigi verið lýst yfir á Pat­reks­firði vegna snjóflóðahættu og reit­ur 4 rýmd­ur.

Björg­un­ar­sveitarmenn og lögregla á Patreksfirði vinna nú að rýmingu svæðisins. Nokkrir tugir íbúa eru á svæðinu segir Jónas, en tekur þó fram að fjöldinn hefur ekki verið staðfestur.

„Það verður ófært í götunni á tíu mínútum“

„Það er skítaveður. Hér er hífandi rok og bullandi ofanúrkoma,“ segir Gunnar Sean Eggertsson, íbúi á Hólum. Hann segir að þokkalega hafi gengið að rýma götuna en að veðrið hafi gert erfitt fyrir.

„Það verður ófært í götunni á tíu mínútum. Ég held að ég sé búinn að moka hana sex sinnum í dag frá hádegi,“ segir Gunnar. Hann segir að lögregla hafi hringt í hús á svæðinu.

„Ef fólk kemst ekki af sjálfsdáðum þá sækir björgunarsveitin það. Ég er svo heppinn að ég á lyftara og gat ég mokað frá húsinu mínu þannig við gátum keyrt á bílnum,“ segir Gunnar aðspurður um hvernig staðið sé að rýmingunni.

Íbúar á svæði 4 fá flestir inni hjá ættingjum eða vinum á svæðinu á meðan á hættustiginu stendur en að sögn Ásgeirs Sveinssonar, 2. varabæjarforseta bæjarstjórnar Vesturbyggðar, geta þeir sem eiga ekki í nein hús að venda gist á hótelinu í bænum, Fosshótel á Vestfjörðum, og greiðir sveitarfélagið og almannavarnir fyrir dvöl þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert