Tveggja ára fangelsi fyrir nauðgun

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Þrjátíu og tveggja ára gamall karlmaður hefur í Héraðsdómi Reykjavíkur verið sakfelldur fyrir nauðgun og dæmdur til að sæta fangelsi í tvö ár, greiða brotaþola 1,2 milljónir í miskabætur, auk sakarkostnaðar og málsvarnarlauna verjanda síns.

Maðurinn, Andri Karl Elínarson Ásgeirsson, var ákærður fyrir að hafa aðfaranótt föstudagsins 4. október 2013, á heimili sínu í Reykjavík, haft samræði við konu en notfært sér að hún gat ekki spornað við verknaðinum sökum ölvunar og svefndrunga.

Brotaþoli og kærasti hennar voru gestkomandi á heimili ákærða umrædda nótt. Ákærði neitaði sök en dómurinn mat framburð hans um atvik næturinnar ekki trúverðugan. Það er niðurstaða dómsins að byggja á framburði brotaþola, sem talinn er trúverðugur og fær stuðning af framburði vitnis, lögreglumanna og læknis. Þá hafi vottorð sálfræðings stutt framburð hennar.

Samkvæmt því verði ákærði sakfelldur fyrir það sem honum var gefið að sök í ákæru.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert