Björgunarstörf í snælduvitlausu veðri

Björgunarsveitir ferjuðu fólk af Hellisheiði í dag.
Björgunarsveitir ferjuðu fólk af Hellisheiði í dag. Malín Brand

„Ástandið er gott og slæmt. Gott að því leyti að við erum búin að ná öllu fólki niður. Þetta voru nokkrir bílar sem við þurftum að ferja fólk úr,“ segir Sævar Logi Ólafsson hjá Hjálparsveit skáta í Hveragerði. Hann var við björgunarstörf á Hellisheiði og Sandskeiði í óveðrinu þegar mbl.is hafði samband við hann. 

Sjá frétt mbl.is: Aðstoða við rýmingu húsa

„Veðrið hérna er alveg snælduvitlaust. Það er mjög blint og hávaðarok og það mikill þæfingur að við erum á fullbreyttum björgunarsveitabíl og erum næstum því fastir á köflum,“ segir Sævar.

„Það er slæmt skyggni og skefur svo rosa fljótt í skafla að um leið og þú stoppar í tvær mínútur þá er komið skafl í kringum bílinn hjá þér,“ segir Sævar. 

Ferðamenn á bílaleigubílum og ábyrgir heimilisfeður

Aðspurður segir Sævar þá sem þurftu á hjálp björgunarsveitamanna að halda í dag hafa komið úr ýmsum áttum.

„Þetta var mjög blandað eins og umferðin á Íslandi er. Þarna voru ferðamenn á bílaleigubílum og svo voru þetta ábyrgir heimilisfeður á leið heim úr vinnu, þetta var öll flóran, segir Sævar en rúmlega fimm bílar voru fastir á Hellisheiði og enn fleiri til viðbótar á Sandskeiði.

Hann segir það algjöra vitleysu að ætla að reyna að ná bílunum niður eins og staðan er núna.

„Bílarnir voru skildir eftir uppi. Það er algjör vitleysa að fara að reyna að eiga eitthvað við þá við þessar aðstæður,“ segir Sævar og bætir við að sumir eru sóttir af aðstandendum á meðan aðrir, sérstaklega útendingar, eru fluttir í upplýsingamiðstöðina í Hveragerði þar sem þeir ýmist bíða á meðan veðrið gengur yfir eða finna sér afdrep.

„Flestir verða rosa þakklátir“

Margir þeirra sem voru fastir í bifreiðum sínum höfðu samband við Neyðarlínu, Vegagerð eða lögreglu sem komu boðum áfram til björgunarsveitanna. Sævar segir flesta vera þakkláta þegar þeim er bjargað af björgunarsveitum. 

„Flestir verða rosa þakklátir þegar þeir sjá stóra bíla koma til bjargar. Það fer eftir því hvað fólk er búið að þurfa að bíða lengi hversu rólegt það er. Margir, sérstaklega útlendingarnir eru að lenda í svona aðstæðum í fyrsta skipti,“ segir Sævar en hann var á leið austur í síðustu yfirferðinni á heiðinni þegar hann talaði við mbl.is og gerði því ráð fyrir að björgunarstörfum væri lokið á svæðinu í bili.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert