PISA-mánuðurinn er hafinn

PISA-rannsóknin er lögð fyrir á þriggja ára fresti.
PISA-rannsóknin er lögð fyrir á þriggja ára fresti.

PISA-prófið verður lagt fyrir alla þá 4.400 nemendur sem stunda nám í 10. bekk í grunnskólum landsins núna í mars. Það verður tekið í um 130 skólum og var lagt fyrir í þeim fyrstu á mánudaginn. Skólastjórnendur velja sjálfir hvenær í mánuðinum prófið er tekið í hverjum skóla og niðurstöður munu liggja fyrir í desember á næsta ári.

PISA er langtíma rannsókn á ýmissi færni nemenda sem hefur verið í gangi í öllum OECD löndunum frá árinu 2000. Áherslur eru mismunandi á milli prófa og í ár er lögð áhersla á að meta læsi nemenda í náttúrufræði, kennsluhætti og viðhorf tengd náttúrufræði en einnig er metinn lesskilningur, læsi á stærðfræði og færni í að leysa verkefni og þrautir í gegnum samvinnu. Prófið er tekið á þriggja ára fresti. Því er stýrt af Efnahags- og framfarstofnuninni OECD og annast Námsmatsstofnun framkvæmd þess hér á landi fyrir Mennta- og menningarmálaráðuneytið.

Miðað er við að prófið sé tekið á tveimur tímum, klukkutíma í senn með hléi á milli og að auki svara nemendur spurningalista sem tekur um klukkustund. Um 20 mismunandi útgáfur eru af prófinu sem dreift er þannig að þeir sem sitja saman eða nálægt hvorum öðrum taka ekki sama prófið.

Ekki prófað beint úr námsefninu

Óskar Níelsson sem starfar við alþjóðlegar rannsóknir á vegum Námsmatsstofnunar segir ekki hægt að undirbúa nemendur sérstaklega fyrir prófið. „Ekki á annan hátt en að segja þeim að gera sitt besta og standa sig vel,“ segir Óskar. „Það er ekki verið að prófa beint úr námsefninu og verkefnin í PISA eru öðruvísi en önnur próf. Þarna reynir á ýmis konar þrautalausnir og það er verið að mæla getu nemenda til að takast á við verkefni af ýmsu tagi.“

Niðurstöður í desember 2016

Prófin eru tekin á mismunandi tímum eftir löndum, á tímabilinu frá febrúar og fram á haust. Að sögn Óskars sækir hvert og eitt land um próftíma. „Marsmánuður fellur vel að íslensku skólastarfi, prófið hefur verið haldið í þessum mánuði nokkur undanfarin skipti og gefist vel,“ segir hann.

Námsmatsstofnun fer yfir PISA-prófið og tekur það 13-14 vikur. Að yfirferð lokinni eru niðurstöður sendar til OECD til frekari úrvinnslu.

Talsvert fjaðrafok hefur jafnan verið þegar niðurstöður PISA eru birtar, en Ísland hefur ekki komið vel út í samanburði við önnur ríki OECD. Niðurstöður þessa prófs verða birtar í desember 2016.

Undanþágur mega ekki vera meira en 5%

Að sögn Almars M Halldórssonar sem starfar við alþjóðlegar rannsóknir hjá Námsmatsstofnun er miðað við að prófið sé lagt fyrir þá nemendur sem hafi til þess færni. Hafi nemandi af erlendum uppruna t.d. verið í íslenskukennslu í minna en eitt ár er prófið ekki lagt fyrir hann. Það er heldur ekki lagt fyrir nemendur með þroskaskerðingar sem gera það að verkum að þeir hafa lítil tök á lestri. Þá eru nemendur með ýmsar andlegar og líkamlegar fatlanir undanskildir próftökunni.

Hvert og eitt tilvik er skoðað fyrir sig, en samkvæmt alþjóðlegum skilyrðum PISA má þetta hlutfall undanþága ekki fara yfir 5% af nemendum í árganginum. „Þetta hlutfall á Íslandi var 4,8% í síðasta PISA-prófi 2012,“ segir Almar.„Það er nokkuð hátt.“

Sumstaðar meiri þrýstingur

Sé nemandi fjarverandi þann dag sem PISA-prófið er lagt fyrir í skóla hans, má hann búast við að taka það annan dag. „Þetta er verkefni sem skólinn hefur samþykkt að taka þátt í, að allir sem hafa til þess færni taki þátt,“ segir Almar. „Við finnum út úr því, í samráði við skólastjórana, hvenær hægt er að leggja prófið aftur fyrir.“

Almar segir allan gang vera á því hvort unglingarnir séu stressaðir fyrir prófið. „Líklega fer það að einhverju leyti eftir skólum. Sumstaðar gæti verið meiri þrýstingur en annars staðar á að krakkarnir standi sig vel.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert