Auki hættu á geðþóttaákvörðunum

Stjórnarráðshúsið í Lækjargötu
Stjórnarráðshúsið í Lækjargötu mbl.is/Ómar Óskarsson

Félagsfundur Félags íslenskra náttúrufræðinga mótmælir harðlega fyrirhuguðum breytingum á lögum um Stjórnarráð Íslands, þ.e. að vald til að ákveða staðsetningu og flutning ríkisstofnana sé fært frá Alþingi til ráðherra.

Þetta kemur fram í ályktun fundarins. Þar segir að slíkt valdaframsal auki stórlega hættu á því að ráðherrar geti að eigin geðþótta og án faglegs undirbúnings tekið ákvarðanir sem ekki geta talist til góðra stjórnsýsluhátta. Þær geti valdið verulegum skaða á starfsemi stofnana og vegið stórlega að réttindum og kjörum starfsfólks.

„Einnig er jafnframt varað við hugmyndum um útvíkkun heimildar til að flytja starfsmenn á milli stofnana. Með því er dregið úr auglýsingaskyldu um opinberar stöður og búið í haginn fyrir að ráðningar í lausar stöður verði, enn frekar en nú er, teknar á öðrum grundvelli en þeim sem faglegur getur talist.

Fundurinn lýsir yfir stuðningi við baráttu starfsmanna á Fiskistofu, sem undanfarið hafa verið í eldlínunni í andstöðunni við ofangreind áform ráðamanna. Þótt áðurnefnt frumvarp sé beinlínis fram komið til þess að knýja í gegn ólöglega ákvörðun ráðherra um flutning höfuðstöðva Fiskistofu þá varðar það hagsmuni allra opinberra starfsmanna. Minnt er á að skýrt hefur komið fram hjá stjórnvöldum að þetta sé einungis fyrsta skrefið af því sem gæti jafnvel orðið að stórfelldum hreppaflutningum opinberra stofnana og starfa,“ segir í ályktuninni.

Fundurinn hvetur alla opinbera starfsmenn til að sameinast í baráttunni gegn frumvarpinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert