Blöskraði ekki verðið á frönskunum

Wikipedia/Rainer Zenz

„Hvernig er háttað tollum á franskar kartöflur og hvert er markmiðið með tollunum?“ segir í skriflegri fyrirspurn sem Helgi Hjörvar, þingflokkformaður Samfylkingarinnar, hefur lagt fram á Alþingi til Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra. Spurður hvort ástæðan sé sú að hann hafi farið út að borða og blöskrað verðlagið á frönskum kartöflum hlær hann og segir svo ekki vera.

„Ég spurði landbúnaðarráðherra í morgun um hugmyndir sem hann hefur verið að viðra um langtímasamninga við bændur um tollvernd, 15 ára samning. Ég held að í tengslum við það sé mikilvægt að fram fari umræða um tolla. Ég spurði hann í morgun um það hvort ekki væri eðlilegt að draga úr tollum á kjúklingum í ljósi þess að þessi stóru kjúklingabú hérna á höfuðborgarsvæðinu eru ekki partur af hefðbundnum landbúnaði. Ég er bara þeirrar skoðunar að draga eigi úr tollum á þær vörur,“ segir Helgi.

Þess utan hafi hann séð að innanlandsframleiðsla á frönskum kartöflum væri 5% af markaðinum en tollurinn á innfluttar franskar kartöflur sé hins vegar 76%. „Þannig að 95% af vörunni er með 76% toll að því er virðist til þess að vernda 5% af framleiðslu. Þá spyr maður sig hvort skynsamlegra væri að styðja bara beint þann hluta sem verið er að framleiða hér á landi í stað þess að neytendur þurfi að greiða himinháa tolla af hinu.“

Helgi segir að áhugavert væri að vita hvort sýn Bjarna á það hversu háir tollar eigi að vera á matvöru til lengri tíma sé ólík afstöðu samstarfsflokksins í ríkisstjórn. Ekki síst í ljósi þess að hann sé einnig formaður Sjálfstæðisflokksins. 

Helgi Hjörvar, þingflokksformaður Samfylkingarinnar.
Helgi Hjörvar, þingflokksformaður Samfylkingarinnar. Norden.org/Johannes Jansson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert