Bræla leikur vinnslur grátt

Þórður Sigurðsson, organisti í Norðfjarðarkirkju er einn þeirra fjölmörgu sem …
Þórður Sigurðsson, organisti í Norðfjarðarkirkju er einn þeirra fjölmörgu sem taka þátt í hrognafrystingu hjá Síldarvinnslunni í Neskaupstað. mbl.is/Sigurður Aðalsteinsson

Mikið at hefur verið vinnslustöðvum um allt land undanfarna daga enda loðnuhrognafrysting í fullum gangi. Slæmt tíðarfar og bræla á miðunum gerir vinnslunum hins grikk en mikið er eftir af loðnukvótanum, segir Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað.

Mikil áhersla er lögð á vinnslu hrogna úr förmum loðnuskipanna sem landa nú hvert af öðru. Í Neskaupstað er lokið við að vinna hrogn úr farmi Bjarna Ólafssonar AK í gærkvöldi og þá hófst vinnsla úr loðnu úr Berki NK. Síðan bíða Beitir NK og Birtingur NK löndunar í Neskaupstað og Hákon EA er að landa frystri loðnu. Tiltölulega hátt hlutfall þeirrar loðnu sem veiðst hefur í grennd við Vestmannaeyjar er karlkyns en hlutfall kvenloðnu er hærra í þeim afla sem fengist hefur á Faxaflóa. Færeyska skipið Finnur fríði landaði 200 tonnum í hrognavinnslu í Helguvík í nótt og fékkst sú loðna í Faxaflóa. Eins er Polar Amaroq væntanlegur til Neskaupstaðar í dag með 700 tonn sem fengust í flóanum.

<strong>Vertíðarstemming í vinnslunum</strong>

Veðurútlit fyrir sunnan land og vestan er ekki gott næstu daga og því munu skipin sem eru að landa fyrir austan sigla norður fyrir land að löndun lokinni. Munu þau freista þess að finna veiðanlega loðnu þar. Bjarni Ólafsson er þegar lagður af stað og verður fróðlegt að frétta hvort hann rekst á loðnu norðurfrá, segir á vef Síldarvinnslunnar.

Gunnþór var fremur svartsýnn varðandi tíðarfarið en það hefur verið erfitt í vetur, nú er bræla á miðunum og slæm spá framundan. 

Það er verið að landa í flestum höfnum og hrognavinnsla í gangi í dag en það töluvert mikið eftir af kvóta og tíðarfarið ekki bjart núna,“ segir Gunnþór.

Að sögn Gunnþórs er alltaf ákveðin vertíðarstemming í kringum loðnuna og allir geta fengið vinnu sem vettlingi geta valdið. Það er alltaf þannig á þessum stöðum sem byggja afkomu sína á fiskvinnslu, stöðum eins og Neskaupstað, Vestmannaeyjum, Akranesi og víðar, segir Gunnþór í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert