Djúp lægð nálgast landið

Djúp lægð er á leiðinni upp að suðvestanverðu landinu samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands en lægðin er þessa stundina stödd fyrir sunnan Grænland. Lægðin mun fara upp með vestanverðu landinu og hafa í för með sér suðaustanstorm með snjókomu, slyddu og rigningu sem ganga mun yfir landið.

Lægðin mun koma upp að landinu í fyrramálið að sögn vakthafandi veðurfræðings. Þá er von á fleiri lægðum í næstu viku frá og með þriðjudeginum og má segja að þær komi á færibandi í kjölfarið. Fylgjast má með lægðinni „í beinni“ á vefsíðunni www.nullschool.net.

Horfur á landinu næsta sólarhringinn gera ráð fyrir suðvestanátt 13-20 metrum á sekúndu og éljum en bjartviðri hins vegar norðaustantil á landinu. Draga mun úr vindi og éljum í kvöld en síðan gengur í suðaustanátt 15-23 m/s í fyrramálið sem fyrr segir með slyddu og rigningu á láglendi en snjókomu á heiðum og fjöllum. Mest úrkoma verður um landið sunnanvert.

Eftir hádegi á morgun snýst vindurinn í sunnanátt 10-18 m/s með skúrum eða éljum. Hins vegar styttir upp að mestu norðaustantil. Hiti verður yfirleitt um eða rétt yfir frostmarki.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert