Fallið frá fyrsta ákæruliðnum

Ríkissaksóknari hefur fallið frá nær öllum sakarefnum í svokölluðu LÖKE-máli að sögn Garðars St. Ólafssonar verjanda lögreglumanns sem ákærður er í málinu. Um er að ræða fyrsta ákæruliðinn sem sneri að meintum ólögmætum uppflettingum í málaskrárkerfi ríkislögreglustjóra á nöfnum tuga kvenna. Hann segir ástæðuna þá að í ljós hafi komið að upplýsingar sem lögreglan á Suðurnesjum veitti í tengslum við rannsókn málsins hafi ekki reynst á rökum reistar.

„Fyrsti ákæruliðurinn var bara tilbúningur til þess að fela það að ekkert hafi komið í ljós við rannsókn. Þetta var aldrei alvöru ákæruliður og ég benti á það frá upphafi. Það fóru aldrei fram neinar uppflettingar. Það voru bara sett nöfn á lista og héldu því fram að þær hefðu átt sér stað. Þannig að þetta var alltaf bara tilbúningur,“ segir Garðar. Upphaflega höfðu lögmaður og starfsmaður upplýsingatæknifyrirtækis stöðu grunaðra í málinu en fallið var frá málunum gegn þeim síðasta sumar.

Seinni ákæruliðurinn sem eftir stendur snýst um að lögreglumaðurinn hafi greint nánum vini frá því á samskiptavefnum Facebook að hann hafi verið skallaður sem tengdist lögreglumáli og er að mati saksóknara var brot á trúnaði. „Ég er mjög hissa á því að þessi hluti ákæru skuli ekki líka felldur niður. Þetta var alltaf mjög vafasamt ákæruatriði, þar sem reynt er að teygja þagnarskylduákvæði svo langt að það komi í veg fyrir að lögreglumenn geti átt sér einkalíf eða stuðningsnet,“ segir Garðar en aðalmeðferð í málinu hefst á morgun.

Hins vegar hafi lögreglumaðurinn aldrei upplýst þennan vin sinn um að árásin sem hann varð fyrir hafi átt sér stað á vinnutíma eða um lögreglurannsóknina að öðru leyti. Garðar segir að um sé að ræða í raun sama meinta brot og þáverandi lögreglustjóri á Suðurnesjum, Sigríður Björk Guðjónsdóttir, hafi verið sökuð um. Hins vegar liggi fyrir að hún fái ekki áminningu vegna þess en skjólstæðingur hans hafi verið sóttur til saka. Fyrir vikið megi velta því fyrir sér hvort sömu lög gildi ekki um almenna lögreglumenn og yfirmenn lögreglunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert