Fundað um öryggismál Evrópu

Þingmannaráðstefna um sameiginlega utanríkis- og öryggismálastefnu Evrópusambandsins stendur yfir þessa dagana í Riga höfuðborg Lettlands en henni lýkur á morgun. Þáttakendur í ráðstefnunni eru ríki sambandsins auk þeirra Evrópuríkja sem eru utan þess en aðilar að Atlantshafsbandalaginu (NATO), Íslands, Noregs og Tyrklands. Fyrir hönd utanríkismálanefndar Alþingis taka Birgir Ármannsson formaður, Óttarr Proppé og Silja Dögg Gunnarsdóttir þátt í ráðstefnunni.

„Ráðstefnan er haldin tvisvar á ári í þeim aðildarríkjum ESB sem fara með sex mánaða formennsku í ráðherraráði sambandsins. Meðal þess sem rætt verður á þingmannaráðstefnunni er stefna ESB gagnvart nágrannaríkjum í austri, samstarf ESB og NATO til þess að mæta nýjum öryggisógnum og ástandið í Miðausturlöndum. Federica Mogherini, utanríkismálastjóri ESB, og Edgars Rinkevics, utanríkisráðherra Lettlands, eru meðal þeirra sem ávarpa ráðstefnuna,“ segir á vef Alþingis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert