Mest hlustað á Bylgjuna

Bylgjan mælist með mesta hlustun af útvarpsstöðvum landsins í aldurshópnum 12-80 ára en 34,6% þessa aldurshóps hlustuðu á Bylgjuna í janúarmánuði. Skákar Bylgjan sínum helsta keppinaut, Rás 2, um tvö prósentustig. Rás 2 mælist með 32,5% hlustun á meðan Rás 1 fær bronsið, mælist með 18,2% hlustun. Þetta kemur fram í mælingum Capacent í janúar og bera þessar þrjár stöðvar höfuð og herðar yfir aðrar útvarpsstöðvar.

FM 957 er í fjórða sæti með 4,3% og K100,5 í fimmta sæti með 3,3% hlustun en aðrar stöðvar eru með minni hlustun.

Sé meðaltal af virkum dögum í janúarmánuði tekið má sjá að síðdegisþáttur Bylgjunnar, Reykjavík síðdegis, er með töluvert betri hlustun en síðdegisþáttur RÚV. Línurit hér að neðan sýnir það glöggt.

Morgunþáttur RÚV er sendur út á samtengdum rásum. Þátturinn nær ekki að skáka Í bítið í hlustun nema á einum stundarfjórðungi, en hægt er að greina hlustun með 15 mínútna millibili. Sé aðeins Rás 2 skoðuð kemst morgunþáttur RÚV ekki með tærnar þar sem Í bítið hefur hælana. Þegar Rás 2 og Bylgjan keppa er Bylgjan yfirleitt með meiri hlustun.

Alls var hlustað á Bylgjuna 268 mínútur í fimmtu viku ársins en 228 mínútur á Rás 2.

Hádegisfréttir RÚV stinga af þegar hlustun er annars vegar og eru vinsælasta útvarpsefni landsins. Rúm 5,6% hlusta á hádegisfréttir Bylgjunnar en 12,4% stilla á hádegisfréttir RÚV sem sendar eru út á samtengdum rásum og mælist hlustunin um 6% á báðum stöðvum, Rás 1 og Rás 2.

Mælt með PPM-tækjum

Gallup mælir útvarpshlustun og sjónvarpsáhorf með rafrænum ljósvakamælingum og hægt er að mæla hlustun á alla þætti á þeim stöðvum sem eru í mælingunum. Það er hins vegar misauðvelt að gera það, eftir því hvort viðkomandi stöð sendir frá sér dagskrárupplýsingar á þar til gerðu formi.

Gallup mælir áhorf og hlustun með svokölluðum PPM-mælitækjum. Í mælinum er hreyfiskynjari sem segir til um það hvort mælirinn sé í notkun eða ekki og ef hann er ekki í notkun telst það tímabil ekki til áhorfs eða hlustunar. Ólíkt sjónvarpsmælingum hefur verið erfitt að fá sundurliðun á hlustun útvarpsstöðva.

Höfum verið á góðu róli

Ívar Guðmundsson er dagskrárstjóri Bylgjunnar og heldur upp á 15 ára afmæli sitt í útvarpi í mars. „Við höfum verið á góðu róli undanfarið. Við höfum aðeins verið að ræða þetta hér innandyra og viljum þakka stöðugleika þessa hlustun. Það hefur verið lítil velta á starfsfólki og þar höfum við gott fólk. Svo stígum við varlega í breytingum og fínstillum bara. Í nánast áratug höfum við verið með sama fólkið og ég tel að fólk vilji hafa sitt eins. Kaffið á morgnana, Moggann, Bylgjuna og allt þetta. Við þurfum að fylgja því að gera ekki stórar breytingar bara til að breyta. Það tekur alltaf sinn tíma að ná árangri í hlustun. Það var öðruvísi áður. Nú finnst mér eins og fólk vilji hafa sitt fólk, sínar raddir og sína þætti.“

Helmingi ódýrari dagskrárgerð

Ívar segir að Bylgjan sé ekki að keppa við neina aukvisa á RÚV. „Ég gæti trúað að við værum með helmingi ódýrari dagskrárgerð en á Rás 2. Ég er bara einn að berjast við þrjá á Rás 2 og ég kalla það gott að hanga þarna. Ég er búinn að vera í 15 ár með sama tíma. Ég veit ekki til þess að neinn hafi verið jafnlengi og ég á sama tíma í útvarpi hér á landi.“

Hlustun á kvöldin dettur mikið niður hjá öllum stöðvum og segir Ívar að það sé erfiður tími. „Við erum meðvituð um það. Það hlusta fáir á útvarp á kvöldin en núna er Erna Hrönn komin inn með kvöldin á Bylgjunni og stendur sig feikilega vel.“ Ekki náðist í Frank Þóri Hall, dagskrárstjóra Rásar 2.

Mest hlustað á þátt Rúnars

Sé hlustendahópurinn 18-49 ára skoðaður kemur í ljós að Rúnar Róbertsson er nýr útvarpskóngur hér á landi en þáttur hans, sem sendur var út frá klukkan 13-16 á Bylgjunni mánudaginn 26. janúar var með rúmlega 11% hlustun. Rúnar var einnig efstur í hlustendahópnum 12-34 ára með 10,1% hlustun.

Talsvert er einnig hlustað á þætti Sigurðar Hlöðverssonar, og Ívars Guðmundssonar á Bylgjunni. Sigurður stýrir útvarpsþætti þætti síðdegis á laugardögum og Ívar virka daga frá 10 til 13.

Afar fáar konur eru með sérútvarpsþátt.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert