Rýming enn í gildi

Svona verður veðrið klukkan 11 í fyrramálið
Svona verður veðrið klukkan 11 í fyrramálið Veðurstofa Íslands

Rýming er enn í gildi á Patreksfirði en þar þurfti 41 íbúi í þrettán húsum að yfirgefa heimili sitt í gær vegna snjóflóðahættu. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Ísafirði verður staðan metin með morgninum en ágætisveður er á Ísafirði og hefur verið í nótt.

Það  gengur í suðaustanstorm með talsverðri úrkomu á morgun en næsta sólarhring er spáð suðvestan 15-23 m/s og éljagangi, hvassast úti við sjóinn, en úrkomulítið NA-lands. Dregur heldur úr vindi og éljum í kvöld. Hiti kringum frostmark.

Seint í gærkvöldi var hálka eða snjóþekja á nánast á öllum á vegum á Vestfjörðum. Þæfingsfærð með skafrenningi er á Steingrímsfjarðarheiði, þó er þungfært á Klettshálsi en aðeins hálkublettir á Innstrandavegi. Flughálka er um Flateyrarveg. Ófært og stórhríð er á Hálfdán, Mikladal og Kleifaheiði. Lokað um Raknadalshlíð. Nánar verður greint frá færð þegar nýjar upplýsingar berast frá Vegagerðinni.

Óvissustig vegna snjóflóðahættu er í gildi á sunnanverðum Vestfjörðum. Reitur 4 á Patreksfirði var rýmdur í gær. Talsverður snjór er fyrir í fjöllum og víða er vitað um veikleika í snjónum, t.d. á Vestfjörðum, suðvesturhorninu og Norðurlandi, segir á vef Veðurstofunnar um hættu á ofanflóðum.

Veðurspá:

Á Grænlandshafi er víðáttumikil 963 mb lægð, sem þokast NA og grynnist heldur. Við Nýfundnaland er vaxandi 990 mb lægð, sem hreyfist NA.

Klukkan þrjú í nótt voru sunnan og suðvestan 13-18 m/s og skúrir eða slydduél S- og V-lands, en annars skýjað með köflum og þurrt að kalla. Hlýjast var 7 stiga hiti á Eskifirði, en svalast 2ja stiga frost í Svartárkoti.

Á föstudag:

Suðaustan og sunnan 18-23 m/s og snjókoma eða slydda, en rigning syðst. Úrkomumest um landið S-vert. Suðvestlægari og éljagangur um kvöldið, en rofar til á N- og A-landi. Hiti víða 0 til 5 stig.

Á laugardag og sunnudag:
Suðvestan 13-18 m/s og éljagangur, en bjartviðri NA-lands. Vægt frost.

Á mánudag:
Suðvestanstrekkingur og él, en bjartviðri NA-til. Hiti kringum frostmark.

Á þriðjudag:
Útlit fyrir vaxandi suðaustnátt með rigningu eða slyddu S- og V-til.

Á miðvikudag:
Snýst líklega í suðvestanátt með éljum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert