„Hver nauðgun er óásættanleg“

Hefur nauðgunarmálum í Indlandi verið mótmælt harðlega síðustu ár.
Hefur nauðgunarmálum í Indlandi verið mótmælt harðlega síðustu ár. AFP

„Þessi kona er búin að vinna kraftaverk með gerð þessarar heimildamyndar, sem vekur athygli á mikilvægu máli sem krefst upplýstrar umræðu. Það er þyngra en tárum tekur að átta sig á því að slíkir voðaviðburðir viðgangast um allan heim, alla daga.“

Þetta segir Halla Tómasdóttir um heimildarmynd Leslee Udwin, India‘s Daughter. Segir heimildarmyndin frá hópnauðgun sem átti sér stað í Nýju Delhi í Indlandi í desember 2012. Sex karlmenn nauðguðu 23 ára gamalli stúlku í strætisvagni. Hún lést af sárum sínum tveimur vikum síðar. Fjórir mannanna eru nú í fangelsi og verða þeir hengdir fyrir glæp sinn. Sá fimmti hengdi sig í fangelsinu en sá sjötti var talinn ósakhæfur vegna ungs aldurs.  

Ekki annað hægt en að styðja verkefnið

Halla kynntist Leslee fyrir um tveimur árum í Kaupmannahöfn og heyrði hún af heimildarmyndinni sem var þá á frumstigi. „Mér fannst framtakið strax mikilvægt og ég ákvað ásamt öðrum góðum konum að hjálpa henni að fjármagna verkefnið, kynna myndina og koma skilaboðum hennar á framfæri”, segir Halla. „Mér fannst ekki annað hægt en að styðja við bakið á þessu verkefni, sem ég taldi strax líklegt til þess að hrista upp í umræðunni um nauðganir og kynferðisbrot.“

Indversk stjórnvöld lögðu í síðustu viku bann við myndinni, sem gerði það að verkum að hún var frumsýnd á miðvikudaginn í staðinn fyrir sunnudaginn eins og áætlað var. Halla segir að mynd Leslee sýni vel þau viðteknu viðhorf sem ríkja í Indlandi þegar kemur að nauðgunum, kynferðisbrotum og réttindum kvenna í landinu. Ummæli eins nauðgarans hafa vakið heimsathygli en hann segir m.a. að nauðgunin hafi verið stúlkunni að kenna. Jafnframt segir lögfræðingur mannsins að ef dótt­ir hans eða syst­ir stunduðu kyn­líf ógift­ar myndi það hafa af­leiðing­ar. „Ég myndi án efa fara með þá syst­ur eða dótt­ur að bónda­bæn­um mín­um og fyr­ir fram­an alla mína fjöl­skyldu myndi ég hella á hana bens­íni og kveikja í.“

„Þetta eru auðvitað ótrúleg ummæli. En málið er að sambærileg ummæli hafa einnig fallið í öðrum löndum,“ segir Halla. „Fyrir nokkrum árum studdum við hjá Auði Capital verkefni sem snerist um að mennta konur sem höfðu orðið óléttar eftir nauðgun í Suður-Afríku. Þá var okkur sagt að þar nauðgaði einn af hverjum fjórum karlmönnum, og um helmingur þeirra stundar hópnauðganir sér til skemmtunar í fátækrahverfum S-Afríku.“

Kvikmyndagerðarkonunum hótað við gerð myndarinnar

Hún segir að þó svo að nauðganir séu alls ekki aðeins vandamál í Indlandi hafi Leslee ákveðið að gera hópnauðgunina í Nýju Delhi að umfjöllunarefni myndarinnar. „Það mál náði heimsathygli, en er því miður ekki einsdæmi. Leslee er búin að vinna baki brotnu að gerð myndarinnar. Ég hef fylgst með henni og Anuradha Singh, indversku konunni sem klippti myndina, í gegnum þetta langa og stranga ferli. Þeim hefur báðum verið hótað allmörgum sinnum á meðan á vinnslu myndarinnar stóð og óttuðust þær á stundum um líf sitt,“ segir Halla.

Halla segir að með því að reyna að banna myndina séu indversk stjórnvöld að gera stór mistök. „Viðbrögðin hafa verið sterk á samfélagsmiðlum og í alþjóðasamfélaginu. Ég held að Leslee sé búin að fara í fimmtíu viðtöl síðustu daga í fjölmiðlum um allan heim.“

Eins og fram hefur komið stóð til að frumsýna myndina á sunnudaginn, sem er alþjóðlegur dagur kvenna. Var sýningunni flýtt og myndin frumsýnd á miðvikudaginn á BBC4. Var þá reyndar búið að forsýna hana í Lundúnum og verður hún jafnframt sýnd í New York-borg á mánudaginn. „Núna er líka verið að skipuleggja sýningu í Svíþjóð. Við stefnum einnig að sýningu myndarinnar hér á landi í sumar eða haust."

Ofbeldi gegn konum alheimsvandamál

Halla segir að ofbeldi gegn konum sé alheimsvandamál. „Ein af þremur konum verður fyrir ofbeldi í heiminum í dag. Þetta eru óásættanlegar tölur, og í raun eru engar tölur ásættanlegar, við eigum bara að uppræta allt ofbeldi og alla umræðu sem reynir að kenna fórnarlambinu sjálfu um slík voðaverk,“ segir Halla.

„Í þessari mynd segir einn nauðgarinn að hún hefði ekki átt að vera úti eftir klukkan átta, hefði ekki átt að vera úti með kærasta sínum og ekki að láta svona illa á meðan henni var nauðgað, þá hefði hún kannski lifað af. Hún hefði sennilega að sögn þessa manns ekki heldur átt að útskrifast sem læknir,“ segir Halla, en faðir stúlkunnar seldi land til þess að mennta hana sem lækni og var hún á leið í bíó með kærastanum til að fagna útskriftinni þegar hún varð fyrir þessari hrottalegu nauðgun sem leiddi til dauða hennar.

„Hún ætlaði að byggja spítala og sinna heilsu fátækra, láta gott af sér leiða í samfélaginu. Það er mjög sjaldgæft að fátækur faðir selji það litla land sem hann á til að mennta dóttur sína.“

Fékk næstum því áfall í hvert skipti

Halla segir að myndin sé afar vel gerð. „Ég fylgdist með allri vegferðinni og horfði nokkrum sinnum á myndina á meðan á vinnslu stóð.  Ég fékk næstum því áfall í hvert skipti sem ég horfði á myndina og finnst hreint ótrúlegt að þetta fái að viðgangast. Það þarf mikla menntun og umræðu og einnig miklu meiri samstöðu karla og kvenna í að uppræta þetta mál. Það er ekkert kvennamál að ofbeldi viðgangist.“

Að mati Höllu snýst India‘s Daugther einkum um tvennt. „Það er ekki jöfn staða milli karla og kvenna á öllum sviðum samfélagsins og birtingarmyndir þess eru með ýmsum hætti, en þarna birtast þær með sérlega hryllilegum hætti.  En myndin sýnir líka vandamál sem fylgja fátækt og lágu menntunarstigi. Þessir drengir koma úr mjög slæmum aðstæðum.“

Í heimildarmyndinni segir einn nauðgaranna að það sé mjög slæmt að þeir hafi verið dæmdir til hengingar því þá verður stúlkum í framtíðinni ekki bara nauðgað heldur drepnar líka, svo þær lifi ekki til að segja frá. „Síðan hafa stúlkur sem var nauðgað fundist dánar hangandi í trjám. Í þessari mynd er verið að tala um eitt hörmulegt tilfelli en í heildina fjallar myndin um alvarleg samfélagsleg viðhorf sem fá að viðgangast. Við þurfum að breyta undirliggjandi viðhorfum og menningu, og ekki bara í Indlandi,“ segir Halla. 

„Tíðni nauðgana og ofbeldis gegn konum er há alls staðar. Við höfum m.a.s. leyft okkur að segja hér á landi að það hafi „bara verið fimm nauðganir“ á Þjóðhátíð. Hver nauðgun er óásættanleg, svo einfalt er þetta.“

Eitt af því sem gerir myndina sterka eru viðtölin við gerendur í hópnauðgunarmálinu. Leslee fékk aðgang að fangelsinu því það var kvenkyns yfirmaður í fangelsinu. Yngsti gerandinn var of ungur til að fá dóm, eða undir sautján ára. Hann var þá ekki sendur í fangelsi heldur á heimili til þriggja ára. „Í Indlandi er verið að gifta stúlkur, 12 og 13 ára á hverjum degi miklu eldri mönnum, en samt má ekki dæma mann mörgum árum eldri fyrir afleiðingar gjörða sinna,“ segir Halla. 

„Þessi kona er hetja“

Halla segir að gerð myndarinnar hafi oft á tíðum verið erfið fyrir Leslee. „Þessi kona er hetja. Hún er búin að verja árum af lífi sínu í að vekja athygli á þessu samfélagsvandamáli og gerir það með afar áhrifaríkum hætti. Hún hefur farið í margar ferðir til Indlands, dvalið þar langtímum saman og staðið í miklu stappi við að klára þetta verkefni.“ Leslee er bresk en gift dönskum leikara. Hún hlaut BAFTA-verðlaun árið 1999 fyrir myndina East is East sem var um innflytjendamál í Lundúnum.

„Jákvæða hliðin á þessu fjölmiðlafári og fáránlegri ákvörðun Indlandsstjórnar er held ég sú að fleiri munu nú líklega sjá myndina og þessi viðbrögð sýna jafnframt hversu erfitt það getur verið fyrir samfélag að viðurkenna sín vandamál,“ segir Halla. „Leslee er enn að vonast til að fá banninu í Indlandi aflétt og er t.d. að vinna í því að fá forsætisráðherra Indlands til þess að sjá myndina. Hún er ótrúleg baráttukona.“

Myndin gefur ólíkum sjónarmiðum rödd

Halla telur að myndin gefi ólíkum sjónarmiðum rödd. „Indverjar telja líklega að þessi mynd sýni ekki rétta mynd af samfélaginu. Ég hef borið þetta undir nokkra Indverja að undanförnu og sumir benda á að það séu margar hliðar á þessu máli. Þetta er ekki einföld umræða og mér finnst hún ekki reyna að einfalda hana í myndinni,“ segir Halla en Leslee ræðir bæði við gerendur og fjölskyldumeðlimi gerenda í myndinni.

„Ég fann til dæmis rosalega til með eiginkonu og litlu barni nauðgarans sem missa þarna eiginmann, föður og fyrirvinnu, það er auðvitað harmleikur fyrir þau. Ég vorkenni líka gömlu konunni, móður eins nauðgarans, sem segir „Nú getur sonur minn ekki borið mig til grafar.“ Ég get vel  séð mannlega harmleikinn fyrir gerendur og aðstandendur þeirra.

Myndin er um samfélag þar sem líf kvenmanns er minna virði en karlmanns og því miður er allt okkar samfélag þannig. En það er líka verið að sýna hvernig þjóðin brást við, fólkið fór út og mótmælti. En hvað eru margar nauðganir þar sem enginn bregst við?“

Hér fyrir neðan má sjá stiklu úr India's Daughter.

Fyrri fréttir mbl.is

„Hún átti bara að vera þögul“

Flýttu sýningu myndarinnar

Lögmennirnir iðrast einskis

Breska kvikmyndargerðarkonan Leslee Udwin.
Breska kvikmyndargerðarkonan Leslee Udwin. AFP
Halla Tómasdóttir
Halla Tómasdóttir
AFP
Mótmæli hafa brotist út víða um Indland verða skelfilegra nauðgana …
Mótmæli hafa brotist út víða um Indland verða skelfilegra nauðgana í landinu. AFP
Frá mótmælum í Indlandi vegna kynferðisofbeldis.
Frá mótmælum í Indlandi vegna kynferðisofbeldis. NARINDER NANU
Indverskur listamaður vinnur að skilti 16. desember 2014, tveimur árum …
Indverskur listamaður vinnur að skilti 16. desember 2014, tveimur árum eftir hópnauðgunina. AFP
AFP
Frá mótmælum í Nýju Delhi.
Frá mótmælum í Nýju Delhi. SAJJAD HUSSAIN
Frá minningarathöfn um stúlkuna stuttu eftir dauða hennar í lok …
Frá minningarathöfn um stúlkuna stuttu eftir dauða hennar í lok árs 2012. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert