Karlar reiðari en konur eftir kynferðisbrot

Aðeins 13,2% þeirra sem leituðu til Stígamóta á síðasta ári …
Aðeins 13,2% þeirra sem leituðu til Stígamóta á síðasta ári kærðu brot til lögreglu. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

13,2% þeirra sem leituðu til Stígamóta á síðasta ári vegna kynferðisofbeldis kærðu brotið til lögreglu. Þetta kemur fram í ársskýrslu Stígamóta sem kynnt var í dag.

Jafnframt kom fram að 79,7% hafi neitað að kæra brotið á meðan 1,2% voru óviss. Upplýsingar vantaði um 25, af 423 einstaklingum eða 5,9%.

Á blaðamannafundi sem haldinn var í tilefni skýrslunnar í morgun sagði Guðrún Jónsdóttir talskona Stígamóta að útskýring á þeim litla fjölda sem kærir sé mögulega sú að þeir sem leita til Stígamóta geri það aðeins til að hjálpa sjálfum sér. „Fæst þeirra sem koma hingað eru í hefndarleit eða ætla að kæra. Fólk kemur hingað til að öðlast bætt lífsgæði eftir að brotið er á þeim,“ sagði Guðrún.

Skömm og sektarkennd algengasta ástæðan

Bætti hún við að þrátt fyrir að þessar tölur sýni bara þá sem leiti til Stígamóta gefa tölurnar til kynna að langflest fórnarlömb kynferðisofbeldis ákveði að kæra ekki gerandann. „Ástæðurnar fyrir því að kæra ekki eru margar,“ sagði hún á fundinum. „Fólk ýmist treystir ekki réttarkerfinu eða á erfitt með að segja frá. Sumir óttast ofbeldismanninn og ákveða þess vegna ekki að kæra. En algengasta ástæðan er skömm og sektarkennd. Fólk lítur svo á að það hafi verið á vitlausum stað, með vitlausu fólki á vitlausum tíma í vitlausu ástandi. Svokallað „victim blaming“ gegnsýrir allt sem við erum að fást við.“

Karlar setja frekar ábyrgðina þar sem hún á heima

Í skýrslunni kemur jafnframt fram að afleiðingar kynferðisofbeldis séu mismunandi eftir kynjum. Konur sem leituðu til Stígamóta í kjölfar brots á síðasta ári voru margar að nefna skömm, kvíða, depurð og lága sjálfsmynd sem erfiðustu afleiðingar kynferðisofbeldis. Karlar nefndu einnig skömm, lélega sjálfsmynd og sektarkennd en einnig reiði. Er reiði eina afleiðingin sem karlar sem leituðu til Stígamóta fundu fyrir í meiri mæli en konur.

Í samtali við mbl.is sagði Guðrún að aldrei áður hafi samtökin skoðað þennan mun á kynjunum. „Afleiðingarnar virðast vera alvarlegri fyrir konurnar,“ segir Guðrún. Eina undantekningin er að karlarnir eru heldur reiðari en konurnar, en það er ekki mikill munur þar á.“ 

Sagði Guðrún á fundinum í morgun að þessar tölur kalli á ýmsar skýringar. „Ég leyfi mér að detta í hug að karlarnir sem leita til okkar séu oft í verra sambandi við tilfinningar sínar og gera minna úr afleiðingunum.“ Þegar það kemur að þeirri staðreynd að karlar finni frekar fyrir reiði en konur segir Guðrún að það eigi sér eina líklega ástæðu. „Karlarnir finna fyrir meiri reiði en konurnar og setja frekar ábyrgðina þar sem hún á heima, hjá gerandanum.“

Í skýrslunni mátti sjá að konur sem leituðu til Stígamóta voru til að mynda helmingi hræddari en karlarnir og áttu helmingi erfiðara með að lifa góðu kynlífi eftir ofbeldi.

Guðrún lagði  þó áherslu á að skjólstæðingar Stígamóta séu í  langflestum tilfellum konur eða 88,1%.

Guðrún Jónsdóttir talskona Stígamóta
Guðrún Jónsdóttir talskona Stígamóta mbl.is/Eyþór
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert