Kólnar undir frostmark

Hálkublettir eru á Hellisheiði. Myndin er úr safni.
Hálkublettir eru á Hellisheiði. Myndin er úr safni. mbl.is/Júlíus

Vindur sunnan- og vestanlands mun síðdegis í dag snúast í sunnan- og suðvestanátt með éljum og krapaéljum. Það mun kólna niður undir frostmark á láglendi og verður víða hált við þessar aðstæður þegar líður á daginn, samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands.

Er gert ráð fyrir að það verði blint í éljum vestantil, einkum á fjallvegum, svo sem á Holtavörðuheiði undir kvöld. Stormur verður síðdegis á Snæfellsnesi og þar hviður 30-40 m/s norðantil alveg fram á kvöld.

Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni eru hálkublettir á Hellisheiði en hálka í Þrengslum. Hálkublettir eru nokkuð víða á Suðurlandi en hálka og snjóþekja er í uppsveitum Suðurlands. Flughált er á Krísuvíkurvegi.

Á Vesturlandi eru hálkublettir mjög víða. Hálkublettir eru á Holtavörðuheiði og hálka á öðrum fjallvegum.

Þá er hálka eða snjóþekja á Vestfjörðum og éljagangur mjög víða. Krapi og þoka er á Kleifaheiði.

Á Norðurlandi vestra eru hálkublettir en hálka er á Siglufjarðarvegi. Krapi og skafrenningur er á Öxnadalsheiði. Hálka, hálkublettir og skafrenningur eru á Norðurlandi eystra og óveður er á Hófaskarði, Raufarhafnarvegi og Sandvíkurheiði.

Það er hálka eða hálkublettir og sumstaðar éljagangur og skafrenningur á vegum á Austurlandi. Hálka og óveður er enn fremur á Vatnsskarði eystra. Þæfingsfærð og skafrenningur er á Fjarðarheiði. Greiðfært er frá Reyðarfirði og með suðausturströndinni en hálka eða snjóþekja er í Öræfasveit. Óveður er við Höfn og Hvalnes.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert