Stúdentar hjálpa sýrlenskum flóttabörnum

Neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi og Fatimusjóðsins fyrir menntun sýrlenskra flóttabarna hófst í gær, fimmtudaginn 6. mars. Um þessar mundir eru fjögur ár liðin frá upphafi átakanna í Sýrlandi, og leggur UNICEF nú sérstaka áherslu á mikilvægi menntunar og skólagöngu fyrir betri framtíð sýrlenskra barna. 

Fjölmargir leggja sitt af mörkum til söfnunarinnar, þar á meðal stúdentar við Háskóla Íslands sem selja póstkort og bókina Arabíukonur, eftir Jóhönnu Kristjónsdóttur, stofnanda Fatimusjóðsins, á Háskólatorgi - og rennur ágóðinn óskertur til söfnunarinnar.

Fleiri en 7,5 milljónir barna hafa lagt á flótta vegna stríðsins í Sýrlandi. Áhersla söfnunarinnar er á menntun sýrlenskra barna sem flúið hafa yfir til Jórdaníu en þar í landi eru fleiri en 220.000 flóttabörn á skólaaldri. Mörg þeirra sækja skóla í flóttamannabúðum þar sem þau búa eða í almenningsskólum í Jórdaníu. Skólarnir eru hins vegar að verða yfirfullir og fleiri en 60.000 börn njóta hvorki formlegrar né óformlegrar menntunar. 

Á meðal styrktarviðburða er Skákmaraþon Hróksins í Hörpu, í dag og á morgun þar sem Hrafn Jökulsson mun tefla frá kl. 09:00-24:00 báða dagana við áskorendur alls staðar að úr samfélaginu. Skák­m­araþonið hófst í morg­un með því að Sig­mund­ur Davíð Gunn­laugs­son, for­sæt­is­ráðherra, lék fyrsta leik­inn.

Öllum er vel­komið að mæta í Hörp­una og spreyta sig gegn Hrafni, sem tefl­ir við einn áskor­anda í senn og mun sam­tals sitja að tafli í 30 klukku­stund­ir. Skák­kunn­átta er al­gert auka­atriði og byrj­end­ur fá til­sögn í tafl­inu hjá Hrafni og liðsmönn­um Hróks­ins í Hörpu. 

Hægt er að leggja söfnuninni lið með því að senda SMS-ið BARN í númerið 1900 (1.490 krónur) og gefa þannig flóttabarni frá Sýrlandi pakka af skólagögnum.

Frétt mbl.is: Skák­m­araþon Hróks­ins í Hörpu í þágu sýr­lenskra flótta­barna

Frétt mbl.is: Forsætisráðherra lék fyrsta leikinn

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert