Suðaustanstormur og snjókoma

Vindaspá klukkan 9
Vindaspá klukkan 9 Veðurstofa Íslands

Þeim sem hyggja á ferðalög yfir heiðar og fjallvegi er bent á að spáð er suðaustanstormi með snjókomu. Mjög hvasst er til að mynda á Hellisheiði og undir Hafnarfjalli og mun heldur bæta í vind þegar líður á morguninn. Skárra veður síðdegis, þó ekki sé það gott: allhvöss sunnanátt og él. Það er bræla á miðunum, að sögn vaktstjóra í stjórnstöð siglinga, og fáir á sjó. 

Búið er að aflétta óvissustigi fyrir sunnanverða Vestfirði og rýmingu á Patreksfirði var aflétt í gærmorgun. 

Veður á mbl.is

Færð og aðstæður á vegum um tíuleytið í gærkvöldi

Hálka er á Sandskeiði, Hellisheiði og Þrengslum og snjóþekja á Mosfellsheiði en annars er og hálka eða hálkublettir mjög víða á Suðurlandi. Varað er við flughálku á milli Hveragerðis og Selfoss.

Á Vesturlandi eru hálkublettir á flestum leiðum en þæfingsfærð og skafrenningur á Bröttubrekku og Holtavörðuheiði og snjóþekja á Svínadal.

Hálka eða snjóþekja er víða á Vestfjörðum en þæfingsfærð og skafrenningur á Steingrímsfjarðarheiði og Þröskuldum. Snjóþekja og skafrenningur er á öðrum fjallvegum Vestfjarða og í Ísafjarðardjúpi.

Á Norðurlandi vestra er hálka eða snjóþekja og víða nokkuð hvasst. Snjóþekja og skafrenningur er á Þverárfjalli, Vatnsskarði og Öxnadalsheiði. Þungfært er nú orðið á Siglufjarðarvegi fyrir utan Fljót. Hálka eða hálkublettir eru á  Norðurlandi eystra en ófært er á Hólasandi og á Dettifossvegi.

Það er hálka eða hálkublettir á vegum á Austurlandi en greiðfært er frá Reyðarfirði og með suðausturströndinni að Öræfasveit en þar taka við hálkublettir eða hálka.

Það gengur í suðaustan 15-23 m/s með slyddu eða rigningu, en snjókomu til fjalla, hvassast við S-ströndina. Snýst í sunnan 10-18 með skúrum eða éljum eftir hádegi, en styttir upp NA-til í kvöld. Hiti 0 til 5 stig.

Veðurhorfur á höfuðborgarsvæðinu

Gengur í suðaustan 15-20 m/s með slyddu eða rigningu, en hægari um tíma kringum hádegi. Sunnan 10-15 og skúrir eða él síðdegis. Hiti nálægt frostmarki.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á laugardag og sunnudag:
Suðvestan og sunnan 10-18 m/s, hvassast við SV-ströndina. Víða él, en bjartviðri á NA- og A-landi. Vægt frost.

Á mánudag:
Suðlæg átt, 8-15 m/s og él, en bjart á N- og A-landi.

Á þriðjudag:
Vaxandi suðaustanátt, hvassviðri eða stormur með slyddu eða snjókomu um kvöldið, en rigningu við ströndina. Hlýnandi veður í bili.

Á miðvikudag:
Suðvestlæg eða breytileg átt og él víða um land. Svalt í veðri.

Á fimmtudag:
Útlit fyrir suðaustanhvassviðri með slyddu eða rigningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert