Þeir Bjarki Ómarsson, Magnús Ingi Ingvarsson og Birgir Örn Tómasson börðust í MMA á Shinobi War-bardagakvöldinu í Liverpool í gær. Bjarki Ómarsson vann sinn bardaga en Magnús og Birgir þurftu að láta í minni pokann fyrir andstæðingum sínum. Mbl.is náði tali af Haraldi Dean Nelson, framkvæmdastjóra Mjölnis, sem fylgdi bardagamönnunum út til Liverpool.
Bjarki Ómarsson var fyrstur Íslendinganna. „Þetta voru hörkubardagar, þeir fengu allir mjög öfluga andstæðinga. Bjarki fékk andstæðing sem er búinn með 12 bardaga en hann er sjálfur búinn með fjóra. Það var fram-og-aftur-rimma en Bjarki var miklu tæknilegri og stýrði bardaganum og var nálægt því að klára hann. Honum tókst reyndar ekki að klára hann en fékk samdóma dómaraúrskúrð,“ segir Haraldur.
Næst var komið að Magnúsi Inga Ingvarssyni en að sögn Haralds var andstæðingur hans ósigraður í fimm bardögum. „Andstæðingur Magga var með 5-0 og það gekk mjög vel í þeim bardaga framan af. En svo fékk Maggi þungt högg eftir að hafa stýrt bardaganum fram að því. Það getur allt gerst í þessu. Í lotunni ákváðum við að stoppa bardagann því við vildum ekki að hann færi inn í þriðju lotuna. Hann var sjálfur sammála því,“ segir Haraldur og bætir við að þetta sé í fyrsta skipti sem Maggi tapar og það sé góð reynsla líka. „Einn tapar og annar vinnur og það kom í okkar hlut að tapa í þetta skipti,“ segir Haraldur en Maggi barðist við heimamann frá Liverpool.
Í lokabardaga kvöldsins og jafnframt titilbardaga kvöldsins um beltið keppti Birgir Örn Tómasson, einnig á móti heimamanni. „Bardaginn hans Bigga var alveg magnaður. Biggi lenti meira, kom þyngri höggum inn, en andstæðingur hans náði honum í gólfið tvisvar eða þrisvar og skoraði hjá dómurum fyrir það. Þetta var hnífjafn bardagi og hann hefði algjörlega getað farið á hinn veginn,“ segir Haraldur og bætir við að sumir í salnum hefðu talið að Biggi yrði sigurvegari viðureignarinnar og eins hafi hann sjálfur, og Íslendingarnir, talið það. „Við erum pínu hlutdrægir en Biggi lenti betri höggum,“ segir Haraldur. Íslenski hópurinn kemur heim til Íslands á morgun, mánudag, og fer strax að undirbúa sig fyrir næstu bardaga en hópur frá Mjölni heldur utan að berjast í lok mars.