Greiða fyrir eldsneyti sveitarinnar

Þessi mynd var tekin þegar björgunarmenn voru á leiðinni að …
Þessi mynd var tekin þegar björgunarmenn voru á leiðinni að sækja mennina. Ljósmyndari/Stephan Mantler

Upphæðin sem gönguskíðamennirnir tveir sem sóttir voru á Vatnajökul á föstudaginn greiddu fyrir björgunina dekkar í mesta lagi kostnað sveitanna sem komu að björguninni vegna eldsneytis á tæki sveitanna í leiðangrinum. 

Líkt og greint hefur verið frá á mbl.is voru mennirnir sóttir á Vatnajökul af Björgunarfélagi Hornafjarðar á föstudaginn. Mennirnir neituðu að fara með björgunarsveitarmönnum til byggða sl. þriðjudag þegar félagi þeirra var sóttur veikur á jökulinn.

Sjá frétt mbl.is: Neituðu að koma til byggða

Hörður Már Harðarson, formaður Landsbjargar, segist í samtali við mbl.is ekki vilja greina frá því hversu háa fjárhæð mennirnir greiddu. Um er að ræða samkomulag á milli sveitarinnar og mannanna tveggja og munu sveitirnar sem komu að björguninni fá fjárhæðina. 

Greiðslan mætir þeim kostnaði sem snýr að eldsneyti en er að sögn Harðar engan veginn í áttina að því sem aðgerð sem þessi kostar. „Þetta byggist á því að þeir voru beðnir kurteislega á þriðjudeginum þegar félagi þeirra var sóttur að koma niður þar sem stefndi í mjög slæma veðurspá,“ segir Hörður.

Sjá frétt mbl.is: Greiddu fyrir björgunina

Að sögn Harðar reiknar Landsbjörg aldrei kostnaðinn við björgunaraðgerðir. Erfitt sé að ætla hvar eigi að byrja að meta kostnaðinn og hvar eigi að enda. Björgunarsveitarmenn fara frá sínum daglegu störfum til að sinna björguninni, nota þarf tæki í eigu sveitanna við björgunina og kaupa þarf eldsneyti svo eitthvað sé nefnt. 

„Við höfum meðvitað tekið þá ákvörðun að blanda ekki kostnaði inn í umfjöllunina. Það er aðalatriði að koma fólk til aðstoðar og sinna því. Fólk á ekki að þurfa að hafa áhyggjur af því hver kostnaðurinn við svona björgunaraðgerð er þegar það er í neyð,“ segir Hörður.

Var greiðslan að frumkvæði gönguskíðamannanna?

„Þegar menn settust niður og fóru að ræða málin í ró og næði þegar komið var til byggða var þetta samkomulagsatriði. Í ljós kom þegar menn ræddu saman að þeir voru með tryggingu sem vonandi dekkar þennan kostnað,“ segir Hörður.

Litið er á greiðsluna sem einstakt tilvik, ekki sem stefnumörkun í starfi félagsins. Hörður segir að leggja þurfi enn meiri áherslu á forvarnir og huga þurfi að stýringu.  

„Við þurfum að komast að niðurstöðu um hvernig við viljum meðhöndla þennan aukna ferðamannastraum,“ segir hann og bætir við að hugsanlega þurfi að takmarka aðgang að ákveðnum svæðum á ákveðnum árstímum.

Fréttir mbl.is um málið: 

Skíðamennirnir greiddu fyrir björgunina

Neituðu að koma til byggða

Sækja ferðamann á Vatnajökul

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka