Golfsamband Íslands leggst gegn breytingum sem lagðar eru til í þingsályktunartillögu um seinkun klukkunnar.
Í umsögn sem GSÍ sendi frá sér, og stíluð er á velferðarnefnd alþingis, segir að seinkun klukkunnar kæmi til með að skerða möguleika fólks á að leika golf og valda miklu tekjutapi hjá golfklúbbum. Íslenskir golfvellir séu aðeins opnir í 5-6 mánuði á ári en hafi verið gríðarlega vel nýttir yfir sumartímann síðustu ár, og oft fullnýttir fram eftir miðnætti yfir hásumarið. Þá er á það bent að veður sé oft skaplegra síðdegis hér á landi.
Vinnst ekki upp á morgnana
„Ef seinkun klukkunnar yrði að veruleika með þeim hætti sem lagt er til í þingsályktunartillögunni, skerðast verulega möguleikar kylfinga og annars íþróttafólks til að stunda íþróttir síðdegis og fram á kvöld og mun nýting íþróttamannvikja því dragast saman. Sá tími sem tapast á kvöldin vinnst ekki upp á morgnana, þar sem ólíklegt verður að teljast að íþróttaástundun hefjist klukkustund fyrr á morgnana. Þá er veðurfar með þeim hætti hér á landi að síðdegis lægir og því oft bestu skilyrðin til að njóta útveru síðdegis og fram eftir kvöldi. Þá er ljóst að íþróttakappleikir, sem fara fram á kvöldin, yrðu að styðjast við flóðlýsingu með tilheyrandi kostnaði,“ segir í umsögninni.
Í umsögninni segir einnig að GSÍ geti hins vegar tekið undir þau rök að huga megi að seinkun klukkunnar yfir vetrartímann, líkt og gert sé í mörgum löndum. Slík breyting hefði ekki jafnmikil áhrif á íþróttaiðkun á Íslandi, og sú sem lögð sé til í þingsályktunartillögunni.
Alls eru tæplega 17.000 kylfingar skráðir félagar í þeim 65 golfklúbbum sem finna má um land allt.