Hnúfubakurinn sem hvalasérfræðingar fylgdust með synda frá norðurströnd Íslands suður Atlantshaf og til Dóminíska lýðveldisins og Púertó Ríkó virðist hafa lokið ætlunarverki sínu þar.
Hann er lagður af stað norður aftur, væntanlega heim til Íslands, og fer nokkuð hratt yfir.
Gísli Víkingsson, hvalasérfræðingur á Hafrannsóknastofnun, segir að ef þetta er raunin hafi hnúfubakurinn aðeins stoppað í tvær vikur í Karabíska hafinu. Það stangast á við fyrri þekkingu, að hvalirnir séu þarna suðurfrá hálft árið.