GAIA, félag meistaranema í umhverfis- og auðlindafræðum við Háskóla Íslands, stendur fyrir Grænum dögum í skólanum dagana 25. til 27. mars nk. Grænir dagar eru röð viðburða og er ætlað að stuðla að vitundarvakningu um ýmis aðkallandi umhverfismál.
Þemað í ár er sjórinn og þær umhverfisógnir sem að honum steðja. „Ábyrgð, skilningur og góð umgengni gagnvart hafinu og lífríki þess er eitthvað sem skiptir okkur á Íslandi miklu máli,“ segir í tilkynningu frá GAIA. Meðal atburða eru fyrirlestrar, pallborðsumræður, bíósýning og bar-svar.
Á dagskránni er meðal annars sýning myndarinnar Mission Blue sem fram fer klukkan 16 miðvikudaginn 25. mars í Norræna húsinu. Í myndinni er sjávarlíffræðingnum Sylviu Earle og samtökum hennar fylgt eftir en þau berjast fyrir bættri umgengni við sjóinn. Þetta er fyrsta og eina tækifærið til að sjá myndina á Íslandi þar sem Netflix á sýningarrétt að myndinni.
Föstudaginn 27. mars klukkan hálf tólf í Stúdentakjallaranum koma svo fulltrúar frá atvinnulífinu, náttúruverndarsamtökum og opinberir starfsmenn saman í pallborði til að ræða um tengsl loftslagsbreytinga og súrnun sjávar. Einnig eru á dagskrá fjöldi áhugaverðra fyrirlestra, listasýning frá nemendum Listaháskóla Íslands, hreinsun strandar með Bláa Hernum og bar-svar með sjávarþema.
„Allir eru hjartanlega velkomnir sem áhuga hafa á að kynna sér málefni sjávarins. Öll dagskráin fer fram á ensku,“ segir jafnframt í tilkynningunni. Nánari upplýsingar um viðburðina má nálgast á Facebook-síðu Grænna daga, Green Days - Iceland.