Ætlar að una niðurstöðunni

Kristinn Örn Jóhannesson, varaformaður Samfylkingarfélagsins í Reykjavík.
Kristinn Örn Jóhannesson, varaformaður Samfylkingarfélagsins í Reykjavík. mbl.is/Kristinn

Kristinn Örn Jóhannesson, varaformaður Samfylkingarfélagsins í Reykjavík, segir kæruna sem kjörstjórn landsfundar Samfylkingarinnar vísaði til félagsins hafa verið fellda niður með þeim útskýringum að viðkomandi hafi fyrir mistök ekki verið skráður sem landsfundarfulltrúi félagsins.

Kæran barst í kjölfar landsfundarins en sá sem kærði ætlaði sér að kjósa í formannskjöri Samfylkingarinnar. Það kom hins vegar í ljós þegar hann mætti á svæðið að hann hafi ekki verið kjörinn landsfundarfulltrúi Samfylkingarfélagsins í Reykjavík.

Kristinn segir að kærunni hafi verið vísað til Samfylkingarfélagsins í Reykjavík þar sem viðkomandi var ekki skráður landsfundarfulltrúi félagsins. Hann segir orðalag í tölvupósti frá SffR hafa verið óheppilega orðað og gat það því ollið misskilningi. Viðkomandi flokksfélagi hafði greitt landsfundargjaldið fyrir auglýstan tíma og kom það honum því nokkuð á óvart að hann hafi ekki verið á skrá.

Flokksmaðurinn, sem vildi ekki láta nafns síns getið, segir í samtali við mbl.is að hann ætli að una þeirri niðurstöðu Samfylkingarfélagsins í Reykjavík að ekkert verði aðhafst vegna kærunnar. 

Samfylkingarfélagið í Reykjavík er búið að biðjast afsökunar á þeim mistökum sem urðu þegar tölvupósturinn vegna landsfundarins var sendur út og segir Kristinn að sérstaklega verði gætt að því fyrir komandi landsfundi að óheppilegt orðalag endurtaki sig ekki.

Ekki munaði nema einu atkvæði á formanni Samfylkingarinnar, Árna Páli Árnasyni, og Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur í formannskjörinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert