Brjóstin beruð aftur í sumar

Ungt fólk sólar sig á Austurvelli en þó talsvert minna …
Ungt fólk sólar sig á Austurvelli en þó talsvert minna af sér en skipuleggjendur viðtburðarins vilja gera í sumar. Ómar Óskarsson

Þó svo að #freethenipple sé búin að taka yfir internetið í dag er það viðhorf, að ekki eigi að kyngera brjóst, ekkert nýtt. Fyrr á þessu ári hófu tvær ungar konur að skipuleggja viðburð í sumar, þar sem konum landsins er boðið að hittast og fagna jafnrétti á Austurvelli.

Það eru þær Stefanía Pálsdóttir og Guðbjörg Thoroddsen Hauksdóttir sem standa að viðburðinum og verður hann haldinn í byrjun júní.

„Þetta verður uppskeruhátíð alls þess sem gerst hefur í dag frekar en yfirlýsing eins og er í gangi núna,“ segir Stefanía í samtali við mbl.is. „Við verðum með svið og tónlist. Fáum töff íslenskar stelpur til að mæta og gera alvöru viðburð úr þessu. Stelpur geta komið og verið á brjóstunum í sólbaði ef þær vilja,“ segir Stefanía.

Hún segir að umræðan eigi ekki endilega að snúast um að frelsa geirvörtuna, heldur að veita konum möguleikann á því að stjórna líkama sínum sjálfar. „Þetta snýst um að konur geti látið sjást í hvaða líkamspart sinn sem er án þess að hann sé kyngerður,“ segir Stefanía og bætir við að áhugavert hafi verið að fylgjast með umræðunni í dag.

„Það voru margir með skrýtna útúrsnúninga og sögðu að strákar myndu alltaf kyngera brjóst. En brjóst eru ekki kynfæri, það er aðalatriðið.“

Aðspurð í hversu góðri stöður íslenskar konur séu þegar það kemur að jafnrétti kynjanna segir Stefanía þær mjög heppnar þegar litið er á heimsbyggðina alla. „Við erum í mjög góðum málum miðað við margar aðrar kynsystur okkar. Hér getur kona gengið í skóla án þess að verða fyrir morðtilræði til dæmis,“ segir Stefanía. „En við megum ekki gleyma restinni. Þó að okkur gangi svona rosalega vel og við getum gert eitthvað eins og þetta í dag megum við ekki gleyma að berjast fyrir kúguðum konum heimsins.  

En hefur átt sér stað bylting meðal íslenskra kvenna eftir atburði dagsins í dag?  „Já algjörlega,“ svarar Stefanía. „Ég er virkilega stolt af íslenskum konum í dag.“

Stefanía Pálsdóttir
Stefanía Pálsdóttir Úr einkasafni
Guðbjörg Thoroddsen Hauksdóttir
Guðbjörg Thoroddsen Hauksdóttir Ljósmynd úr einkasafni.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert