„Firring að píka sé eina rétta orðið“

Huginn Þór Grétarsson hefur gefið út fjöldan allan af barnabókum …
Huginn Þór Grétarsson hefur gefið út fjöldan allan af barnabókum og stofnaði sína eigin bókaútgáfu, Óðinsauga. mbl.is/Golli

„Þetta eru bara for­dóm­ar og ekk­ert annað,“ seg­ir Hug­inn Þór Grét­ars­son, höf­und­ur barna­bók­anna Lík­am­inn henn­ar Söru og Lík­am­inn hans Jóa, sem hafa hlotið tölu­verða gagn­rýni fyr­ir það að kalla kyn­færi stúlkna „buddu“ en ekki píku.

Sigrún Braga­dótt­ir skrifaði opið bréf til bóka­út­gáf­unn­ar Óðinsauga, sem gef­ur bæk­urn­ar út, á vef­ritið knuz.is í októ­ber sl. þar sem hún gagn­rýn­ir bæk­urn­ar. Nú hef­ur enn á ný mynd­ast umræða um málið á sam­fé­lags­miðlum, og virðast marg­ir hafa sterk­ar skoðanir.

„Furðulegur rembingur í ákveðnum hópi femínista“

„Þetta er furðuleg­ur remb­ing­ur í ákveðnum hópi femín­ista um að það megi bara nota eitt orð yfir kyn­færi ungra stúlkna. Um þau eru mörg sam­heiti, meðal ann­ars budda sem mér er tamt úr upp­eldi og sem höf­und­ur nota ég það,“ seg­ir Hug­inn Þór. „Að píka sé eina rétta orðið er bara firr­ing.“

Seg­ir hann bók­ina verk­færi í hend­ur for­eldra fyr­ir ólæs börn sín, sem geti nýst vel til þess að ræða um lík­ama og lík­ams­virðingu. For­eldr­ar geti þó notað þau orð sem þeim er tamt. „Ég tel að það eigi ekki að búa til ein­hverj­ar grýl­ur með því að gagnrýna orð sem hafa lengi verið í notkun. Það er hrein og klár neikvæðni inn í umræðuna um líkama barna, í stað þess að ræða á jákvæðann hátt um líkamann og gefa öllum þessum orðum jákvæðna gildishlaðningu.“

„Buddur geyma klink, píkur geyma leg og eggjastokka“

Í bréfi Sigrún­ar, sem hún kallaði „Buddu­bréf“ benti hún á að marg­ir ættu í stök­ustu vand­ræðum með að tala um þenn­an lík­ams­hluta vegna þess hve gild­is­hlaðið orðið „píka“ er. „Kannski er það ekk­ert skrítið því fáir lík­ams­hlut­ar hafa verið jafn niður­lægðir í gegn­um tíðina, brotið á þeim, hrækt á þá eða þeir upp­nefnd­ir á viður­styggi­leg­an hátt. Af því leiðir lík­lega að í viðleitni til að tala fal­lega um pík­ur eru iðulega dreg­in upp hin furðuleg­ustu gælu­nöfn á borð við dúlla, blúnda, kjall­ari, kisa, stína, klobbi, pjása, rifa og……BUDDA!“ 

Velt­ir hún því upp hvort full­orðið fólk þori ekki að nefna lík­ams­hluta sín­um réttu nöfn­um, og seg­ist telja það al­gjör­an óþarfa að nota orðið „budda“ yfir píku í ný­leg­um barna­bók­um. „Budd­ur geyma klink, pík­ur geyma t.d. leg og eggja­stokka. Í budd­ur má troða ýmsu smá­legu en ekki í pík­ur, það get­ur verið hættu­legt. [...] Hversu gagn­legt er það fyr­ir lík­ams­mynd og kyn­verund stúlkna að fá þau skila­boð að þær séu með buddu í klof­inu?“

Segir ekkert eitt orð réttara en annað

Hug­inn seg­ir að pjalla, klobbi, budda og fleiri orð hafi verið notuð yfir kyn­færi stúlkna og þau séu öll góð og gild. Að út­hrópa þau sem eitt­hvert pjatt sé frekt og merki um þröng­sýni. Þá tek­ur hann fram að orðið „píka“ geti líka haft fleiri en eina merk­ingu en hon­um þyki það þó hið ágæt­asta orð.

„Mér finnst það skamm­ar­legt hjá femín­ista­hreyf­ing­unni að búa til ein­hverja nei­kvæðni í kring­um orðanotk­un yfir þenn­an lík­ams­hluta. Mér finnst þetta svo litað af fá­fræði og norna­veiðum eins og það eigi að ráðast á þá sem eru ekki sam­mála. Þessi hóp­ur femín­ista er kom­inn með öfga­til­b­urði,“ seg­ir hann.

Þá seg­ir hann umræðuna bera vott af of­ríki, og það séu „frekju­til­b­urðir að heimta að aðeins eitt orð sé rétt. Það er ein­fald­lega ekki þannig og það er ekki á dag­skrá út­gáf­unn­ar að hefta tján­ing­ar­frelsi höf­unda vegna hreyf­ing­ar sem tel­ur sig hafa fundið hið eina sanna orð yfir kyn­færi stúlkna.“

„Mega ekki vera notuð krútt­leg orð um kyn­færi lít­illa stúlkna?

Þá bend­ir Hug­inn á að sam­heiti séu vel þekkt yfir fullt af hlut­um og seg­ist hann hafna því al­gjör­lega að eitt­hvað eitt orð sé rétt­ara en önn­ur. Til dæm­is séu mörg orð yfir snjó í ís­lenskri tungu, því hann sé fólki hug­leik­inn. „Ef eitt­hvað er í brenni­depli get­ur það vel or­sakað að um það verði búin til mörg orð og sam­heiti. Þetta get­ur átt við um kyn­færi kvenna sem þarf ekki að vera nei­kvætt. Orð verða til við notk­un tungu­máls­ins. Budda hef­ur ekki neina nei­kvæðna gild­is­hlaðningu þó það hafi vissu­lega fleiri en eina merk­ingu.“

Þá seg­ir hann orðanotk­un­ina vissu­lega lands­hluta­tengda, en „budda“ hafi honum fundist vera í meiri notk­un á Norður­landi. „Það er ekki hægt að ætl­ast til þess að sunn­lenska sé eina rétta tungu­málið. Ef gam­alt orð sem hef­ur verið notað lengi er svona mikið fyr­ir þeim mega þær líka spyrja sig um upp­runa píku.“

„Mega ekki vera notuð krútt­leg orð um kyn­færi lít­illa stúlkna? Við ger­um grein­ar­mun á stúlk­um sem hafa ekki náð kynþroska­aldri og fullorðnum konum, en það er eng­in lög­regla femín­ista sem seg­ir að það verði að vera notað sama orðið þegar þú ert lít­il stúlka og full­orðin kona,“ seg­ir hann að lok­um.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert