Bannað að prjóna á bifhjóli

Er nú ólöglegt að prjóna vísvitandi á bifhjóli.
Er nú ólöglegt að prjóna vísvitandi á bifhjóli. mbl.is/Árni Sæberg

Samgöngustofa hefur sent frá sér samantekt um helstu breytingar sem gerðar voru á umferðarlögum nýverið með samþykki Alþingis 17. febrúar og öðluðust gildi 27. febrúar. Samkvæmt tilkynningu eru þar mörg atriði sem eiga erindi við almenning.

Í nýju lögunum koma til að mynda fram breytingar á lögum um létt bifhjól, en mikil aukning hefur verið á notkun lítilla raf- eða vélknúinna bifhjóla hér á landi síðustu ár. Samkvæmt nýjum umferðarlögum hefur verið gerð breyting á skilgreiningu og reglum um akstur slíkra hjóla. Hluti rafmangshjóla telst nú létt bifhjól í flokki 1. 

„Skilgreiningum á léttu bifhjóli og reiðhjóli er breytt þannig að nú er léttum bifhjólum skipt í tvo flokka, I og II. Í flokki léttra bifhjóla I eru bifhjól sem ná ekki meiri hraða en 25 km á klst. hvort sem þau eru raf- eða bensíndrifin og er þá miðað við hámarkshraða sem tilgreindur er af framleiðanda bifhjólsins. Í umferðarlögin hefur verið bætt við, í skilgreiningu á léttu bifhjóli, að sé það rafdrifið skuli það ekki vera yfir 4 kW að afli,“ segir m.a. í samantekt Samgöngustofu.

Er nú jafnframt þrettán ára aldurstakmark fyrir stjórnendur léttra bifhjóla í flokki 1. Áður fyrr voru þau skilgreind sem reiðhjól og því engin aldursmörk fyrir stjórnendur þeirra.

Ekki er gerð krafa um ökunám og ökuréttindi né heldur sérstakt próf varðandi akstur léttra bifhjóla í flokki I. Hjól í þessum flokki eru hinsvegar undanþegin vátryggingarskyldu en eigendur eru hvattir til að huga vel að tryggingarmálum og leita ráða hjá tryggingarfélögum varðandi ábyrgðatryggingar.

Með nýju lögunum er akstur léttra bifhjóla í flokki 1 heimilaður á akbrautum óháð hámarkshraða á vegi. Áfram verður heimilt að vera á gangstétt, hjólastígum og gangstígum. Ef hjólastígur er samhliða gangstétt eða gangstíg er einungis heimilt að aka á hjólastígnum. Ef léttu bifhjóli í flokki 1 er ekið af gangstétt út á akbraut og hún þveruð skal aka á gönguhraða.

Annað sem kemur fram í nýju lögunum eru breytingar sem ætlaðar eru til þess að koma í veg fyrir að ekið sé af ásettu ráði á afturhjóli bifhjóls. Einnig eru gerðar breytingar á reglum um farþega á bifhjólum (léttum og þungum).

„Nú hefur verið gerð sú breyting á að 20 ára og eldri ökumönnum léttra bifhjóla, í
báðum flokkum, er heimilt að hafa farþega á hjólunum, enda séu þau til þess
ætluð,“ segir í samantekinni. En ef barn, sjö ára eða yngra, er farþegi á bifhjóli þarf það að vera í sérstöku sæti. 

„Farþegi má ekki sitja framan við ökumann. Ökumaður og farþegi bifhjóls skulu að
jafnaði hafa báða fætur á fótstigum eða fóthvílum og ökumaður báðar hendur á stýri,“ segir í samantekinni.

Með nýju lögunum er bannað að prjóna vísvitandi á bifhjóli. Skal ökumaður bifhjóls að jafnaði hafa bæði (öll) hjól bifhjólsins á vegi þegar það er á ferð. „Í raun má segja að með þessu sé lagt bann við því að prjóna á bifhjólinu, með öðrum orðum að ekið sé vísvitandi einhverja vegalengd á afturhjólinu. Það er þó mat Samgöngustofu að í lögunum sé tekið tillit til þess þegar framhjól lyftist óvart lítillega frá jörðu t.d. þegar ökumaður tekur skarpt af stað. Slíkt getur gerst en stendur þá stutt yfir og er mjög ólíkt því þegar ökumaður lyftir framhjólinu upp og prjónar vísvitandi. Slíkt athæfi er mjög hættulegt líkt og mörg alvarleg slys og banaslys vitna um,“ segir í samantektinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert