Lenti heilu og höldnu

TF-LIF, þyrla landhelgisgæslunnar.
TF-LIF, þyrla landhelgisgæslunnar. Ljósmynd/Halldór Sveinbjörnsson

Rétt fyrir 16:30 í dag barst stjórnstöð Landhelgisgæslunnar tilkynning frá Flugstjórnarmiðstöðinni í Reykjavík um að lítil einkaflugvél væri í vandræðum vegna éljagangs og sambandsleysis en síðast var vitað um vélina á flugi nálægt Borgarnesi.

Samkvæmt tilkynningu frá Landhelgisgæslunni hafði stjórnstöðin samstundis samband við TF-LIF, þyrlu Landhelgisgæslunnar sem var að koma inn til lendingar á Reykjavíkurflugvelli eftir æfingaflug.  Áhöfn þyrlunnar áætlaði að taka eldsneyti í Reykjavík og fara svo strax af stað til móts við flugvélina en staðsetning hennar var ekki nákvæmlega þekkt.  Jafnframt boðaði Landhelgisgæslan viðbragðsaðila vegna slíkra atvika í samhæfingarstöðina í Skógarhlíð. 

Um klukkan 16:43 fékk stjórnstöð Landhelgisgæslunnar tilkynningu frá Flugstjórnarmiðstöðinni í Reykjavík um að þeir hefðu náð sambandi við flugvélina.  Stefndi hún þá á flugvöllinn á Sauðárkrók og bjóst við að lenda kl. 16:55.  Flugvélin var svo tilkynnt lent á Sauðárkrók heilu og höldnu á áætluðum tíma.  Var þyrlan þá afturkölluð sem og aðrir viðbragðsaðilar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert