Nóg að tala um stórkostlegt gáleysi

Sniglarnir á ferð.
Sniglarnir á ferð. mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

„Ég veit ekki hvers vegna var verið að setja þetta inn í lögin. Ég held að það sé ekki ástæða til þess í raun. Í fyrri lögum var vísað í stórkostlegt gáleysi og er enn í nýju lögunum og við teljum að það hafi verið fullnægjandi til þess að taka meðal annars á svona málum,“ segir Hrönn B. Harðardóttir, formaður Bifhjólasamtaka lýðveldisins Sniglanna, í samtali við mbl.is vegna nýrra umferðarlaga sem tóku gildi í lok síðasta mánaðar.

Með nýju lögunum er meðal annars sérstaklega tekið fram að bannað sé að prjóna vísvitandi á bifhjóli og að ökumaður skuli að jafnaði hafa bæði, eða öll, hjól bifhjólsins á veginum þegar það sé á ferð. Fram kemur í samantekt Samgöngustofu að í raun megi segja að með þessu sé lagt bann við því að prjóna á bifhjóli. Það er að ekið sé vísvitandi einhverja vegalengd á afturhjólinu „Það er þó mat Samgöngustofu að í lögunum sé tekið tillit til þess þegar framhjól lyftist óvart lítillega frá jörðu t.d. þegar ökumaður tekur skarpt af stað. Slíkt getur gerst en stendur þá stutt yfir og er mjög ólíkt því þegar ökumaður lyftir framhjólinu upp og prjónar vísvitandi. Slíkt athæfi er mjög hættulegt líkt og mörg alvarleg slys og banaslys vitna um,“ segir ennfremur í samantektinni.

Sönnunarbyrðin færð yfir á ökumanninn?

Hrönn segir Sniglana setja ákveðið spurningamerki við þetta atriði laganna. Samtökin taki heilshugar undir það að ekki sé ásættanlegt að ökumenn bifhjóla prjóni vísvitandi í umferðinni. Slíkt eigi ekki heima á vegum landsins. Hins vegar geti þær aðstæður komið upp að slíkt gerist fyrir mistök og þá sé sönnunarbyrðin hugsanlega komin á ökumanninn að sýna fram á að ekki hafi verið um viljaverk að ræða. Þá sé spurning hvaða áhrif þessi breyting kunni að hafa á möguleg tryggingamál.

„Ég held að rétt hafi verið að halda sig við þetta opna stórkostlega gáleysi. Það sem við erum pínu hrædd við varðandi þetta er að það er alltaf möguleika á að maður prjóni án þess að það sé ætlunin. Maður gæti þurft að bjarga sér frá bíl og prjónað þá í leiðinni og misst stjórn á hjólinu. Spurningin er hvernig það kæmi út tryggingalega þar sem einhver sá ökumanninn prjóna. Það er líka möguleiki að einhver taki of skarpt af stað og einhver tilkynni það. Þetta er svolítið huglægt mat hvernær verið er að prjóna vísvitandi,“ segir Hrönn.

Telja að ökumenn vespa ættu að sækja námskeið

Sniglarnir hafa fleira að athuga við nýju lögin en þar er um að ræða ákvæði þeirra um að litlar raf- og bensíndrifnar vespur séu flokkuð sem létt bifhjól í flokki 1. Engar kröfur séu hins vegar gerðar um að ökumenn þeirra þurfi að sækja námskeið til þess að vera heimilt að aka slíkum farartækjum en ökumenn þeirra séu oft ungir krakkar, 13-15 ára. Þeim sé hins vegar heimilt samkvæmt lögunum að aka í umferðinni, á göngustígum jafnt sem á þjóðvegum með 90 km hámarkshraða.

„Þarna má vera á rafmagnsvespu úti á 90 götu með farþega aftan á rétt eins og á reiðhjóli þegar viðkomandi er orðinn tvítugur og hjólið er til þess ætlað. Það væri lágmark að mínu mati að skylt væri að fara á námskeið. Þess má geta að þeir sem taka bifhjólapróf fá sérstaka fræðslu um hvernig reiða eigi farþega. Þetta gæti jafnvel orðið til þess að ungt fólk sæi síður ástæðu til þess að taka skellinöðrupróf þegar það yrði 15 ára. Við setjum ákveðin spurningamerki við þetta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert