Ók af vettvangi á Holtavörðuheiði

Frá Holtavörðuheiði fyrr í ár.
Frá Holtavörðuheiði fyrr í ár. mbl.is/Golli

Lögregla lýsir eftir ökumanni sem ók bifreið sinni af vettvangi eftir 10 bíla árekstur í blindbyl norðan við Biskupsbeygju á Holtavörðuheiði rétt fyrir klukkan fimm í dag.

Mbl.is sagði frá því fyrr í kvöld að sjö bíla árekstur hefði orðið en samkvæmt nýjum upplýsingum frá lögreglu voru bílarnir 10 í heildina. Allir bílarnir voru á norðurleið og er helmingur þeirra óökuhæfur og minniháttar slys urðu á fólki.

Einni bifreiðanna sem átti hlut að máli var ekið af vettvangi og lýsir lögregla því eftir vitnum og ökumanni hennar. Bifreiðin sem um ræðir er ljósgræn fólks bifreið, sennilega Subaru, og var henni ekið norður.

Þeir sem telja sig hafa upplýsingar um áreksturinn, bílinn eða ökumanninn eru beðnir um að hafa samband við lögregluna á Vesturlandi í gegnum Neyðarlínuna, 112.

Búið er að flytja allt fólk af vettvangi með hjálp björgunarsveitarinnar Húna og er unnið að því að flytja síðustu tvo bílana á brott. Önnur akreinin er enn lokuð en stórhríð og mikil hálka er á heiðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert