Páskaskjálftar við Heklu

Hekla
Hekla Ljósmynd/Gísli Sigurðsson

Fjórir litlir jarðskjálftar hafa mælst norðaustur af Heklu á síðustu 36 klukkutímum samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands. Sterkast skjálftinn var 1,5 að stærð og átti sér stað klukkan 19:46 í gærkvöldi. Hinir skjálftarnir voru allir undir 1 að stærð en skjálftarnir voru allir á 15 km dýpi. Virkni var á sama svæði í mars 2013 þegar níu skjálftar áttu sér stað og einnig í mars 2014 þear átta skjálftar mældust. Varla nokkur virkni hefur mælst á svæðinu inn á milli eða þar til nú. Árið 2013 var litakóðanum fyrir flug breytt í gulan og lýstu Almannavarnir yfir óvissustigi í eina viku yfir páskahátíðina.

Engin merki eru um hreyfingu á bergkviku. Þó er möguleiki á að jarðskjálftarnir endurspegli sívaxandi þrýsting undir Heklu. Það að skjálftarnir séu árlegur viðburður í seinni hluta mars getur bent til að orsök þeirra sé árstíðabundin. Engar skýringar eru þó á því hverskonar árstíðabundin fyrirbæri gætu komið af stað jarðskjálftum á 15 km dýpi. Þar sem skjálftaeftirlit við Heklu var bætt til muna seint á árinu 2012 getur verið að svipaðir atburðir hafi átt sér stað en ekki mælst á fyrri árum. Ekki er hægt að ákvarða hvort skjálftarnir 2013 bendi til nýrrar virkni á áður rólegu svæði.

Á fundi fulltrúa Veðurstofu, Almannavarna og ISAVIA í dag voru skjálftarnir ræddir og ákveðið var að ekki væri ástæða til að hækka viðbragðsstig fyrir almenning eða flug að svo stöddu. Veðurstofan mun fylgjast náið með svæðinu og bendir á að mikilvægt sé að hafa í huga að fyrri Heklugos hafa ekki gert boð á undan sér með miklum fyrirvara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert