Minnast Farkhundu í Ráðhúsinu

Í Kabúl brugðu konur á það ráð að bera kistu …
Í Kabúl brugðu konur á það ráð að bera kistu Farkhundu til grafar og neita karlmönnum um að snerta hana þvert á hefðir Afgana sem leyfa konum að jafnaði ekki að taka þátt í jarðarförum. AFP

Boðið hefur verið til viðburðar í Ráðhúsi Reykjavíkur á morgun til þess að minnast Farkhundu, 27 ára gamals kennaranema, sem var hrottalega myrt af stórum hópi manna í Kabúl þann 19. mars síðastliðinn.

Gestir eru hvattir til þess að taka með sér útprentaðar myndir af Farkhundu á athöfnina sem mun hefjast kl. 16.00. Þetta kemur fram í tilkynningu frá skipuleggjendum viðburðarins.

Morðið á Farkhundu er rekið til þess að múlla nokkur laug því upp á hana að hún hafi brennt Kóraninn. Múllann laug þessu vegna þess að Farkhunda, sem nam trúarleg fræði í íslömskum skóla, hafði ásakað hann um að brjóta lög íslam með því að selja lítil bréfsnifsi með trúarlegum textum (tawiz) undir þeim formerkjum að textarnir væru kraftmiklir galdraseiðir. Hópur manna safnaðist í kringum Farkhundu við hróp múllans og barði hana til dauða með spýtum og steinum, drógu síðan lík hennar að árbakka, brenndu það og hentu síðar í Kabúl-ána.

Morðið á Farkhundu hefur vakið sterk viðbrögð í Afganistan og um allan heim. Í Kabúl brugðu konur á það ráð að bera kistu Farkhundu til grafar og neita karlmönnum um að snerta hana þvert á hefðir Afgana sem leyfa konum að jafnaði ekki að taka þátt í jarðarförum. Á þriðjudaginn var gengu þúsundir saman í Kabúl til þess að krefjast réttlætis fyrir Farkhundu. Minningarathafnir og kröfugöngur hafa einnig verið farnar víðs vegar annars staðar í heiminum undir yfirskriftinni Justice for Farkhunda.

Notendur Facebook og Twitter hafa birt greinar og myndir og skipulagt viðburði henni til heiðurs undir kassamerkinu #JusticeForFarkhunda.

Minningarathöfnin í Ráðhúsinu er liður í þessari alþjóðlegu hreyfingu. Þar mun Fatima Hussaini lesa ljóð til minningar Farkhundu og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir mun einnig segja nokkur orð. Undirskriftarlisti verður á staðnum sem gestir geta undirritað til þess að hvetja afgönsk stjórnvöld til þess að taka harðar á ofbeldi gegn konum í Afganistan og tryggja réttlæti fyrir Farkhundu. Einnig er ætlunin að fleyta kertum í minningu Farkhundu í lok athafnarinnar, skipuleggjendur munu koma með kerti en gestir mega gjarnan taka kerti með sér.

Skipuleggjendur vilja hvetja sem flesta til þess að mæta á morgun til þess að minnast Farkhundu og taka skýra afstöðu gegn ofbeldi gegn konum. Þá er fólki bent á Facebook-síðu viðburðarins sem má nálgast hér.

Athöfnin fer fram í Ráðhúsi Reykjavíkur.
Athöfnin fer fram í Ráðhúsi Reykjavíkur. mbl.is/Ómar Óskarsson
Á þriðjudaginn var gengu þúsundir saman í Kabúl til þess …
Á þriðjudaginn var gengu þúsundir saman í Kabúl til þess að krefjast réttlætis fyrir Farkhundu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert