Alltaf skotinn í strákum

Rikki Líndal sálfræðingur.
Rikki Líndal sálfræðingur. Eggert Jóhannesson

„Alveg frá fjögurra ára aldri hafði ég verið skotinn í einhverjum – og það voru alltaf strákar. Ég taldi ekkert óeðlilegt við það og brá töluvert þegar ég áttaði mig á því að aðrir strákar voru ekki þannig. Þeir voru skotnir í stelpum. Þessi uppgötvun varð til þess að ég prófaði að vera með vinkonu minni en það virkaði ekki. Ég heillaðist ekki af henni með rómantískum hætti. Ég reyndi þetta líka með annarri vinkonu minni en það var sama sagan. Ég bar ekki sömu tilfinningar til þeirra og strákanna sem ég hafði verið hrifinn af.“

Þetta segir dr. Ríkarður Líndal sálfræðingur, alltaf kallaður Rikki. Tíðarandinn á Íslandi var samkynhneigðum ekki hliðhollur á þessum tíma, í kringum 1970, og Rikki minntist ekki á þessar kenndir sínar við nokkurn mann. „Ég þekkti enga homma og bældi þessar tilfinningar niður. Djammaði bara meira til að halda óróanum í skefjum. Yrði ég skotinn í einhverjum stillti ég mig en fyrir kom að ég endaði í rúminu með strákum eftir djammið. Það var þó sárasjaldan og þessir strákar voru ekki hommar,“ segir hann.

Helsta fyrirmyndin á þessum tíma var píanósnillingurinn Liberace og hér heima vissi Rikki af Gulla rakara. Fór þó aldrei að ræða við hann. „Maður heyrði mjög leiðinlegar sögur af hommum og þorði fyrir vikið ekki að ræða þessi mál við neinn.“

Rikki stundaði nám í Menntaskólanum við Tjörnina en lauk ekki stúdentsprófi. Þótti affarasælast að fara utan og úr varð að hann ritaðist inn í háskóla í Toronto árið 1972. Sendiherra Kanada á Íslandi, Brian Holt, hafði milligöngu um það en hann var kunningi foreldra Rikka. „Mamma vildi að ég færi til Bretlands en Brian ráðlagði mér að fara frekar til Kanada. Námið væri mun ódýrara þar. Ég vissi varla hvar Kanada var á landakortinu en sló samt til. Aðalatriðið var að komast í burtu.“
Rikki var orðinn 28 ára þegar hann kom út úr skápnum. „Það sem hélt aðallega aftur af mér var að ég óttaðist að fá ekki inni í háskóla ef fólk vissi að ég væri hommi. Eflaust finnst einhverjum þetta seint en á þessum tíma var ekkert óalgengt að menn væru að koma út úr skápnum á aldrinum 25 til 30 ára, jafnvel síðar. Satt best að segja truflaði kynhneigðin mig ekki sérstaklega á námsárunum, ég lokaði bara á hana. En það gerði það líka að verkum, mér að vísu óafvitandi þá, að svoleiðis bæling á rómantískar tilfinningar sem fylgja kynhneigðinni deyfir líka tilfinningar til annarra almennt, og leið ég fyrir það.“

Rikki ræðir ítarlega um þessi mál í samtali við Sunnudagsblað Morgunblaðsins um helgina og einnig starf sitt sem sálfræðingur í Kanada. Nálgun hans í því starfi þykir óhefðbundin en Rikki trúir á eilíft líf og sérhæfir sig í fólki sem sér ekki lengur tilgang með lífinu.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert