Löngu tímabærar breytingar

Tvö húsnæðisfrumvörp Eyglóar voru afgreidd úr ríkisstjórn í dag.
Tvö húsnæðisfrumvörp Eyglóar voru afgreidd úr ríkisstjórn í dag. mbl.is/Ómar

Gísli Örn Bjarnhéðinsson, framkvæmdastjóri Búseta, segir að frumvarpið um endurskoðun á lögum um húsnæðissamvinnufélög, sem afgreitt var úr ríkisstjórninni fyrr í dag, sé löngu tímabært. Um séu að ræða mjög þarfar og nauðsynlegar breytingar á lögunum.

Eins og fram hefur komið afgreiddi ríkisstjórnin tvö frumvörp Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra, á fundi sínum í dag. Annað frumvarpið snýr að breytingum á húsaleigulögunum og hitt að endurskoðun á lögunum um húsnæðissamvinnufélög.

Síðarnefnda frumvarpinu er ætlað að auðvelda starfsemi húsnæðissamvinnufélaga hér á landi. Eygló sagði í samtali við mbl.is fyrr í kvöld að í raun væri verið að nútímavæða lögin.

Skapar félögunum sterkari grunn

Gísli Örn segir að breytingarnar séu í takt við það sem gerðist á Norðurlöndunum fyrir tuttugu til þrjátíu árum. „Breytingarnar eru að skýra ákveðinn starfsramma fyrir félögin, skerpa á réttindum og skyldum búseturétthafa og skapa möguleika á sterkari og sjálfbærari rekstrargrundvelli fyrir félögin. Þau geti þá þróað sig betur eins og tíðkast hefur á Norðurlöndunum,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Hann bætir enn fremur við að breytingarnar muni renna styrkari stoðum undir rekstur Búseta og gera félaginu kleift að vaxa jafnar og öruggar. Þá muni þær auka úrval eigna félagsins og jafnframt bjóða búseturéttarlausnir sem hæfa og henta breiðari hópi fólks.

Frétt mbl.is: „Mikilvægt skref í rétta átt“

Gísli Örn Bjarnhéðinsson, framkvæmdastjóri Búseta.
Gísli Örn Bjarnhéðinsson, framkvæmdastjóri Búseta.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert