Sakaður um að svíkja 18 milljónir undan skatti

Sérstakur saksóknari hefur ákært karlmann á sextugsaldri fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum, en maðurinn er m.a. sakaður um að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum einkahlutafélags á lögmætum tíma. Samtals nemur fjárhæðin um 18 milljónum króna.

Ákæran, sem var gefin út í desember sl., er í tveimur liðum og tekur til áranna 2011 til 2013.

Í fyrri lið ákærunnar er maðurinn sakaður um meiri háttar brot gegn skattalögum, sem framkvæmdastjóri og stjórnarmaður einkahlutafélags, með því að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum félagsins á lögmæltum tíma. Einnig fyrir að hafa ekki staðið ríkissjóði skil á virðisaukaskatti sem var innheimtur í rekstri einkahlutafélagsins. Heildarfjárhæðin nemur 9,4 milljónum króna.

Í öðrum lið er maðurinn ákærður fyrir að hafa ekki staðið ríkissjóði skil á staðgreiðslu opinberra gjalda sem haldið var eftir af launum starfsmanna einkahlutafélagsins. Samtals nemur fjárhæðin 8,7 milljónum króna.

Þess er krafist að maðurinn verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. 

Farið hefur verið fram á frávísun málsins, en ákærði telur að réttur hans til réttlátrar málsmeðferðar hafi verið brotinn og vísar hann til jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Maðurinn telur að annar einstaklingur hafi borið ábyrgð við hlið hans á skattskilum félagsins. Sá einstaklingur var ekki ákærður í málinu. Á miðvikudag fer fram munnlegur málflutningur um frávísunarkröfuna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert