Sjaldgæft að fólk finnist seint

mbl.is

Það er sjaldgæft að fólk finnist mörgum dögum eða vikum eftir andlát að sögn lögreglu. Um helgina var greint frá því að karlmaður á fimmtugsaldri hefði fundist látinn í íbúð sinni á föstudag, en talið er að hann hafi látist fyrir um tveimur mánuðum.

Dánarorsök mun liggja fyrir að lokinni krufningu, en að sögn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu er ekki talið að dauða mannsins hafi borið að með saknæmum hætti. 

Maðurinn, sem var fæddur árið 1971, bjó einn í kjallaraíbúð í fjölbýlishúsi. Hann átti í litlum samskiptum við sína nánustu og nágranna.

Að sögn lögreglu heyra svona mál til undantekninga. Í mesta lagi komi upp eitt til tvö tilvik á ári, en oftast er um að ræða einstaklinga sem eru einrænir og eiga fáa að.

Fannst látinn í íbúð sinni

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert