43% andvígir háspennulínu yfir Sprengisand

Sprengisandur.
Sprengisandur.

Ný skoðanakönnun sem Gallup gerði fyrir Landvernd og Náttúruverndarsamtök Íslands 5. til 12.  mars sl. sýnir að andstaða almennings við lagningu háspennulínu yfir Sprengisand hefur aukist umtalsvert. 

Spurt var: „Ertu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) því að lögð verði háspennulína yfir hálendið um Sprengisand?“  

Hlutfall þeirra sem eru andvígir er nú 43,4% en í sambærilegri könnun sem gerð var í ágúst 2012 voru 36% aðspurðra andgvíg lagningu háspennulínu yfir Sprengisand. Hlutfall þeirra sem eru andvígir háspennulínu hefur því aukist um 7,5 prósentustig, að því er segir í tilkynningu frá Náttúruverndarsamtökum Íslands.

Þá segir, að sömuleiðis hafi stuðningur við Sprengisandslínu minnkað frá því í ágúst 2012. Þá voru 28% aðspurðra fylgjandi lagningu háspennulínu yfir Sprengisand en nú eru 25,4% fylgjandi.

„Í síðustu viku kynntu samtökin könnun sem sýndi að stuðningur almennings við stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands hefur aukist umtalsvert miðað við sambærilega könnun árið 2011. Af því má ráða að stuðningur við verndun hálendisins njóti vaxandi stuðnings í þjóðfélaginu. Stefna ríkisstjórnarinnar gengur þvert á þann almenna vilja.

Framkvæmd þessarar skoðanakönnunar er hluti af hálendisverkefni Landverndar og Náttúruverndarsamtaka Íslands. Verkefnið nýtur stuðnings Náttúruverndarsjóðs Pálma Jónssonar og fjár sem safnaðist á tónleikunum 'Gætum garðsins' sem haldnir voru samtökunum tveimur til stuðnings í mars 2014,“ segir í tilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert