Fjögur börn slösuðust í strætisvagni

Fjögur börn slösuðust í morgun um borð í strætisvagni.
Fjögur börn slösuðust í morgun um borð í strætisvagni. mbl.is/Sigurður Bogi

Fjögur börn slösuðust í morgun eftir að strætisvagn neyddist til að nauðhemla við umferðarljós, þegar slökkviliðsbíll fór þar hjá í neyðarakstri, samkvæmt upplýsingum mbl.is. Farþegi vagnsins segir að vagninn hafi verið á leið frá Mjódd þegar hópur leikskólabarna kom um borð í vagninn. 

„Á næstu ljósum var stöðvað og beðið eftir grænu ljósi, það kom og ökumaður strætisvagnsins hélt áfram, en þá kom allt í einu slökkviliðsbíll í neyðarakstri með ljósin á og bílstjórinn neyddist til að nauðhemla svo að slökkviliðsbíllinn kæmist yfir,“ segir farþegi vagnsins.

„Við nauðhemlun slasast, að mér sýnist, fjögur börn. Þó ekki alvarlega en tvö af þeim voru að minnsta kosti með sprungna vör eftir atvikið.“

Bauð alla sína aðstoð

Jóhannes S. Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó, staðfestir að atvikið hafi átt sér stað. „Það var þarna hópur leikskólabarna í vagninum þegar það kom slökkviliðsbíll á forgangsljósum. Bílstjórinn hefur þá þurft að nauðhemla. Ég hef ekki enn heyrt í bílstjóranum þar sem hann er enn í akstri en mér skilst að hann hafi boðið alla sína aðstoð og að hún hafi verið afþökkuð,“ segir Jóhannes. „Leikskólakennararnir sem fylgdu krökkunum munu svo hafa samband við okkur síðar í dag til að ræða þetta nánar.“

Belti nauðsynleg í strætisvögnum?

Aðspurður hvort atvikið kalli á að sett séu öryggisbelti í vagna Strætó segir Jóhannes að fyrir því séu varla fordæmi. „Hvergi í Evrópu eru belti í innanbæjarvögnum og það er fyrst og fremst vegna þess að slíkt myndi hafa gríðarlegan kostnað í för með sér. Þetta eru vagnar sem keyra yfirleitt mjög hægt og eru sífellt að stoppa og keyra af stað. Í Evrópu hefur þetta verið metið þannig að ekki sé þörf á öryggisbeltum.“

Almenningsstrætisvagnar eru ekki skyldugir til að hafa öryggisbelti samkvæmt lögum. „Hins vegar eru belti í öllum okkar vögnum sem eru í akstri á milli bæja en það er líka heimild að standa í þeim. Í meðferð á alþingi er núna lagafrumvarp um þann akstur og við erum hlynntir því að þar verði tekið upp aldurstakmark fyrir þá sem mega standa í vögnunum og að það verði takmarkað við 18 ára aldur, auk þess sem vagninn megi aldrei fara yfir 80 kílómetra hraða,“ segir Jóhannes.

„Við höfum öryggið að leiðarljósi í allri okkar þjónustu en þegar kemur að þessu þá held ég að verið sé að skjóta dálítið yfir markið.“

Jóhannes S. Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó.
Jóhannes S. Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert