Mála apríl bláan fyrir einhverf börn

Harpan var sveipuð bláum ljóma í apríl í fyrra.
Harpan var sveipuð bláum ljóma í apríl í fyrra.

Styrktarfélag barna með einhverfu stendur nú, annað árið í röð, fyrir styrktarátakinu Blár apríl sem hefur það að meginmarkmiði að vekja athygli á málefnum einhverfra barna. Mun allt styrktarfé renna óskipt til námskeiðahalda fyrir einhverf börn og aðstandendur þeirra til að gera þeim betur kleift að takast á við daglegar áskoranir.

Að sögn aðstandenda átaksins er ástæðan fyrir tímasetningunni sú að 2. apríl er alþjóðlegur dagur einhverfunnar. Um allan heim er haldið upp á bláan apríl (e. Autism Awareness Month) með því að lýsa upp byggingar og önnur þekkt kennileiti í bláum lit. Meðal kennileita sem munu verða bláleit í apríl eru Bessastaðir, Höfði, Ráðhúsið, Landspítalinn, Smáralind, Empire State byggingin í New York, Tokyo-turninn og Kristsstyttan í Rio de Janeiro.

Klæðast bláu 10. apríl

„Þar sem 2. apríl ber í ár upp á Skírdag verður haldið upp á dag einhverfunnar þann 10. apríl þess í stað. Verður hann blár þemadagur um land allt til að vekja athygli á málefnum einhverfra. Þá eru allir, ungir sem aldnir, hvattir til að klæðast bláu frá toppi til táar,“ segir Ásta Sigurðardóttir, sem situr í stjórn styrktarfélagsins. 

„Í ár stendur átakið yfir frá 1. til 10. apríl, þegar átakið nær hámarki, og nú þegar hafa fjölmörg fyrirtæki og stofnanir ákveðið að taka þátt. Í samstarfi við sveitarfélögin og leik- og grunnskóla landsins verða börn sérstaklega hvött til að mæta bláklædd í skólann auk þess sem farið verður yfir ástæður þess að staðið er fyrir bláum þemadegi, en foreldrar eru að sjálfsögðu einnig hvattir til að mæta bláklæddir til vinnu.

Raunar óskum við eftir því að fyrirtæki og stofnanir taki uppátækinu fagnandi og hvetji sína starfsmenn sérstaklega til að mæta til vinnu íklædd bláu til að vekja athygli á málefnum einhverfra. Í fyrra myndaðist gjarnan mikil stemning hjá þeim fyrirtækjum sem tóku þátt.“

Safna fyrir námskeið fyrir einhverf börn

Meginmarkmið Blás apríls er að vekja athygli á málefnum einhverfra og slá á þær ranghugmyndir og mýtur sem enn lifa góðu lífi í hugum almennings en hluti átaksins felst í söfnun styrktarfjár. Í fyrra tókst félaginu að safna fyrir sérkennslugögnum að andvirði 4,5 milljóna sem dreift var til allra grunnskóla á landinu og hefur þegar vakið mikla ánægju meðal einhverfra barna að sögn Ástu.

Eins og áður sagði mun allt styrktarfé renna óskipt til námskeiðahalda fyrir einhverf börn og aðstandendur þeirra til að gera þeim betur kleift að takast á við daglegar áskoranir, í samstarfi við Greiningar- og ráðgjafastöð ríkisins.

Hægt verður að leggja söfnuninni lið með því að hringja í síma 902-1010 og þá renna 1000 kr. til málefnisins. Fyrirtæki og stofnanir eru einnig hvött til að leggja málefninu lið með frjálsum framlögum. Kennitala félagsins er 440413-2340 og reikningsnúmer 111-15-382809.

Nánari upplýsingar má finna hér

Fjöldi fólks tók þátt í átakinu í fyrra.
Fjöldi fólks tók þátt í átakinu í fyrra.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert