Óttablandin virðing fyrir Everest

Vilborg Arna Gissurardóttir er tilbúin í slaginn á nýjan leik …
Vilborg Arna Gissurardóttir er tilbúin í slaginn á nýjan leik og stefnir á topp Everest í seinni hluta maí. ljósmynd/Gunnar Sverrisson

Fjallagarpurinn Vilborg Arna Gissurardóttir hélt af landi brott í morgun áleiðis til Nepal þar sem hún hyggst klífa Everest, hæsta tind jarðarinnar. Hún segist full tilhlökkunar en tilfinningin sé engu að síður önnur en þegar hún fór í fyrra. Þá þurfti hún frá að hverfa eftir hræðilegt slys í hlíðum fjallsins.

Þó endanlegi áfangastaður Vilborgar Örnu sé ævintýralegur og framandi hófst ferðin á vel þekktri leið. Héðan flaug hún til London en þaðan flýgur hún til Doha, höfuðborgar Katar, og síðan áfram til Katmandú í Nepal á morgun. Þar hittir hún teymið sem hún mun ganga með, vonandi alla leið á topp Everest-fjalls. 

„Þetta leggst nú bara ágætlega í mig en ég get samt ekki neitað því að þetta er öðruvísi en í fyrra en ég hlakka til að klífa fjallið og hitta fólkið aftur og vera í Kumbudalnum. En maður getur alveg verið viðbúinn því að upplifun við að fara af stað við þessar aðstæður verði öðruvísi en þegar maður lagði af stað í fyrsta skipti,“ segir Vilborg Arna.

Sextán manns fórust í hlíðum Everest í apríl í fyrra eftir að snjóflóð féll á þá. Slysið var það mannskæðasta í sögu fjallsins. Vilborg Arna segir að þegar fólk klífi fjöll þá viti það hvað það sé að fara út í þó það eigi ekki endilega von á svo stórum slysum eins og átti sér stað í fyrra.

„Ég er ekki beint smeyk en tilfinningin er samt aðeins öðruvísi. Það er meira átak að fara af stað aftur en í fyrsta skiptið. Ég hef alltaf gert mér grein fyrir hættunni en það er eitt að vita af hættunni en annað að hafa séð hana eins og við sáum hana í fyrra. Ég ber óttablandna virðingu fyrir Everest og stundum kemst ég í aðstæður þar sem ég verð hrædd en það hjálpar mér að vera meðvituð um umhverfið og að ana ekki út í hætturnar,“ segir hún spurð að því hvort hún sé smeyk eftir reynslu sína í fyrra.

Búa sig undir súrefnisleysið

Að morgni föstudagsins langa flýgur hópur Vilborgar Örnu til Lukla og hefst þá gangan upp í grunnbúðirnar sem eru í 5.300 metra hæð yfir sjávarmáli. Gangan þangað tekur níu daga. Sjálfur toppurinn er í um 8.848 metra hæð. Hópurinn fer ekki stystu leið heldur gengur yfir fjallaskörð til þess að ná meiri hæð og aðlagast betur aðstæðum áður en lengra er haldið.

Þegar í grunnbúðirnar er komið hefst hin eiginlega aðlögun en hún er mikilvæg í þunnu loftinu í þessari miklu hæð.

„Þá erum við að labba upp og niður Everest-fjall og upp í fjallshlíðarnar í kring. Markmiðið er að fjölga rauðu blóðkornunum í líkamanum og aðlagast hæðinni til að geta tekist á við súrefnisleysið,“ segir Vilborg Arna.

Hittir gamla kunningja aftur

Það er svo ekki fyrr en í kringum 12. maí sem hópurinn er tilbúinn að leggja á sjálfan tindinn. Þá tekur við bið eftir því að veðurfar sé hentugt fyrir gönguna. Þegar veðurglugginn opnast er áætlað að gangan á toppinn taki um fimm daga. Vilborg Arna segir því að hún ætti að komast á toppinn á tímabilinu 13.-25. maí.

Þó að slysið mannskæða breyti upplifun Vilborgar Örnu að einhverju leyti er hún einnig reynslunni ríkari eftir að hafa farið upp í grunnbúðir Everest í fyrra.

„Maður veit náttúrlega betur hvað maður er að fara út í. Það má heldur ekki gleyma því að það er mikil tilhlökkun að fara aftur í Kumbudalinn og hitta sjerpana. Ég er náttúrlega að fara að hitta marga sem ég kynntist í fyrra þannig að það er líka fullt af hlutum sem maður hlakkar mikið til að upplifa,“ segir hún.

Everest-fjall.
Everest-fjall. EPA/NARENDRA SHRESTHA
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert