Skora á bæjarstjórn að synja Landsneti um framkvæmdaleyfi

Vallahverfi í Hafnarfirði.
Vallahverfi í Hafnarfirði. mbl.is/Árni Sæberg

Hörð mótmæli komu fram á fjölmennum íbúafundi sem haldinn var í Hraunvallaskóla í Hafnarfirði á fimmtudag, gegn fyrirætlan Landsnets um að leggja nýja 220kV rafmagnslínu frá tengivirki við Hamranes.  Skorað var á bæjarstjórn Hafnarfjarðar að synja Landsneti um framkvæmdaleyfi þar til náðst hefur bindandi samkomulag um niðurrif eldri lína eða lagningu þeirra í jörð og að allar nýjar línur verði lagðar í jörð.

„Forsaga málsins er sú að Landset ætlaði að leggja 400kV háspennulínur að nýju tengivirki sem reisa átti við Hrauntungu, til að styrkja flutning raforku á Suðurnes og að álverinu í Straumsvík. Samhliða átti að rífa svokallaða Hamraneslínu, færa raflínur að álverinu í Straumsvík og fjarlægja stóra tengivirkið sem stendur við Hamranes í Hafnarfirði,“ segir Stefán Georgsson, sem situr í stjórn nýstofnaðra samtaka íbúa á Völlunum.

„Með hliðsjón af þessu var aðalskipulagi Hafnarfjarðar breytt og byggðin í Hafnarfirði teygir sig nú alveg að tengivirkinu við Hamranes.“

Landsnet átti frumkvæðið

Fyrirætlanir Landsnets gengu hins vegar ekki eftir og línur og tengivirki standa enn, þrátt fyrir að nú sé komin umtalsverð íbúðabyggð á svæðið. Íbúum sem nú búa undir línunum var lofað að línurnar og tengivirkið yrði hvort tveggja farið árið 2009. Nú hyggst Landsnet leggja nýjar raflínur frá tengivirkinu sem lofað var að fjarlægja og hafa þau áform mætt mikilli andstöðu hjá íbúum hverfisins.

„Hafnarfjarðarbær hefur jafnframt skipulagt og undirbúið svokallað Skarðshlíðarhverfi á svæðinu, en ekki getað úthlutað lóðum þar sem 220kV háspennulína gengur gegnum hið áætlaða hverfi,“ segir Stefán. „Þetta ber allt að skoða í ljósi þess að frumkvæðið að skipulagsbreytingunum átti Landsnet sjálft.“

Suðið ómar um hverfið þegar rignir

Stefán segir að frá tengivirkinu og raflínunum stafi bæði sjón- og hljóðmengun. „Þegar úti er rigning þá byrja línurnar að suða mikið og það heyrist vel í nærliggjandi götum. Ítrekað hefur því verið lofað að línurnar verði fjarlægðar og tengivirkið minnkað að umfangi.  Það hefur ekki gengið eftir, þrátt fyrir yfirlýsingar um annað. Nú hyggst Landsnet loks hefjast handa við að styrkja flutningslínur á Suðurnes, en þá með því að leggja nýjar raflínur frá tengivirki sem ítrekað hefur verið sagt að sé til bráðabirgða.“

Að sögn Stefáns hefur bréf verið sent á alþingismenn Suður- og Suðvesturkjördæmis og bæjarfulltrúa í Hafnarfirði. Þá munu þingmenn verða boðaðir til fundar af íbúasamtökunum ásamt bæjarstjórn Hafnarfjarðar eftir páska. Verið er að safna undirskriftum íbúa og íbúðareigenda í Hafnarfirði til að mótmæla fjölgun háspennulína á Völlunum og verður þeim skilað inn fyrir 7. apríl næstkomandi.

Sjá frétt mbl.is: Ekki til í að taka á sig kostnað

Vallahverfi í Hafnarfirði.
Vallahverfi í Hafnarfirði. Árni Torfason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert