Bera ábyrgð á farþegum sem taka myndir

Ökumaður rútunnar stoppaði á miðjum Laugavatnsvegi til þess að hleypa …
Ökumaður rútunnar stoppaði á miðjum Laugavatnsvegi til þess að hleypa ferðamönnum út að taka myndir af hestum. Hjalti St. Kristjánsson

Ökumenn virðast ekki gera sér grein fyrir hættunni sem getur skapast þegar þeir stoppa á miðjum vegi til að taka myndir. Þeir bera ábyrgð á farþegum sem þeir hleypa út til þess, að sögn Odds Árnasonar, yfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á Suðurlandi.

Mbl.is barst mynd frá vegfaranda sem átti leið um Laugavatnsveg um helgina en þar hafði rúta með ferðamönnum stoppað á sínum vegarhelmingi til þess að hleypa þeim út að taka myndir af hestum. Aðrir ökumenn sátu fastir fyrir aftan rútuna á meðan.

Oddur segir að lögreglunni hafi ekki borist tilkynningar um að hópferðarbílar stoppi á veginum á þennan hátt en af og til sé tilkynnt um fólksbíla og jeppa sem hafi verið lagt á veginum til að taka myndir.

„Fólk virðist ekki gera sér grein fyrir hættunni sem því fylgir. Það er náttúrulega mjög alvarlegt ef ökumenn í atvinnuakstri eða almennt hleypi fólki út á götum á svona stöðum. Ábyrgðin er ökumannsins ef eitthvað kemur fyrir þegar svona gerist, ekki bara á stöðu ökutækisins heldur líka á þeim farþegum sem hann hleypir út. Menn þurfa að standa klárir á því að þetta skapar slysahættu,“ segir hann.

Lögreglan veit ekki til þess að slys hafi hlotist af því þegar rútur stoppa með þessum hætti en hins vegar veit hún um óhöpp sem hafa orðið þegar ökumenn hafa vikið til hliðar þegar bílar stöðva skyndilega fyrir framan þá, að því er virðist í þeim eina tilgangi að taka mynd.

„Sannarlega vonumst við til þess að atvinnumenn í hópferðaakstri beri skynbragð á þá hættu sem þeir eru að skapa með þessu,“ segir Oddur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert