Fyrsta aprílgabbið í Morgunblaðinu

Fyrsta aprílgabb fjölmiðils hér á landi sem vitað er um birtist í Morgunblaðinu árið 1953. Þá var greint frá því á baksíðu blaðsins að til umræðu hefði komið að fá nýja fjögurra hreyfla farþega- og flutningavél til þess að halda uppi samgöngum á milli Reykjavíkur og Akraness.

Birt var mynd af flugvélinni sem átti að hafa verið á sveimi yfir borginni en flugvélin var talsvert sérstök útlits. Var um að ræða rútu með vængi, hreyfla og stél.

Daginn eftir sagði í Morgunblaðinu að starfsmenn þess hefðu tekið upp á þeirri nýbreytni „að birta aprílgabb í Morgunblaðinu í gær“ og gengist við því að birt hefði verið samsett mynd af strætisvagni og flugvél. Víkverji Morgunblaðsins greindi frá því nokkrum dögum síðar að aprílgabbið hefði tekist ágætlega. Hringt hefði verið á skrifstofur blaðsins og spurt hvenær vélin tæki upp áætlunarferðir og að Akurnesingar hafi verið spennti við tilhugsunina um að nýta sér þetta kostulega farartæki og komast til Reykjavíkur á fáeinum mínútum, eins og segir í umfjöllun Jónasar Ragnarssonar í Morgunblaðinu 31. mars 2002.

Morgunblaðið hélt síðan uppteknum hætti árið eftir, þegar birt var frétt þess efnis að bandaríski kvikmyndaleikarinn Tyrone Power hefði óvænt heimsótt Ísland, og hefur gert síðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert