Siglufjarðarvegur lokaður vegna snjóflóðs

Unnið að mokstri á Siglufjarðarvegi. Mynd úr safni.
Unnið að mokstri á Siglufjarðarvegi. Mynd úr safni. Mynd/Sigurður Ægisson

Siglufjarðarvegur er lokaður vegna snjóflóðs. Þetta kemur fram á vef Vegagerðarinnar. Snjóflóðið féll úr Miðstrandargili en búast má við að úr fleiri giljum komi snjóflóð. 

Búast má við norðanátt og snjókomu og skafrenningi um norðaustan og austanvert landið frá því síðdegis í dag og fram á nótt, samkvæmt upplýsingum veðurfræðings Vegagerðarinnar.

Hálkublettir eru á Hellisheiði en annars er nokkur hálka eða hálkublettir á Suðurlandi, einkum útvegum.

Á Vesturlandi er víða hálka eða hálkublettir á vegum. Snjóþekja er á Bröttubrekku og á Holtavörðuheiði.

Hálka er víða á Vestfjörðum. Ófært er um Steingrímsfjarðarheiði og þungfært um Þröskulda. Þæfingsfærð er á Klettshálsi.

Á Norðurlandi er hálka á Öxnadalsheiði og snjóþekja og skafrenningur á Víkurskarði.  Lokað er um Siglufjarðarveg, en snjóflóð féll úr Miðstrandargili. Búast má við að úr fleiri giljum komi snjóflóð. Ófært er um Mývatns- og Möðrudalsöræfi og Vopnafjarðarheiði en mokstur er hafin á þessum leiðum.

Á Austurlandi er hálka eða snjóþekja á vegum. Ófært er um Vatnsskarð eystra og þungfært og éljagangur um Oddskarð og Fjarðarheiði. Þæfingsfærð er á Hróarstunguvegi og á Hlíðarvegi. Hálka eða hálkublettir með suðausturströndinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert