Svarta röndin virðist blá

„Þetta er skandall, KR treyjan á ekki að vera blá og hvít heldur svört og hvít,“ sagði Aron Bjarki Jósepsson varnarmaður KR-inga þegar hann var nýbúinn að sjá nýja búninginn sem KR ætlar að nota í sumar.

Hinn frægi svarti og hvíti búningur sem KR hefur notast við frá stofnun félagsins 1899 virðist breyta um lit eftir því hvernig birtan er. Þannig sjá sumir hinn klassíska svarta og hvíta búninginn en aðrir sjá svörtu röndina sem bláa.

Uppfært kl. 09.45: Hvaða lit sérð þú á búningi KR? Taktu prófið á mbl.is.

Nýi búningurinn kom til landsins í gær en hann er gerður í samvinnu við Nike. Íþróttavörurisinn hefur verið að þróa nýja og byltingarkennda aðferð sem gerir búninginn enn léttari.

Var valinn nýr tónn af svörtum lit með nýrri áferð sem virðist vera blá í augum sumra en um helmingur þeirra sem séð hafa búningana sjá hvítt og svart, en aðrir hvítt og og blátt.

„Ég sá aðstoðarþjálfara KR, Guðmund Benediktsson, koma með búninginn áðan og þá fannst mér hann vera blár en þegar ég sé hann hérna fyrir framan mig virkar hann á mig sem svartur og hvítur,“ segir Atli Sigurjónsson miðjumaður KR.

Ekki leyfilegt að rugla andstæðingana í ríminu

Samkvæmt upplýsingum frá KSÍ er ekki leyfilegt að notast við búninga sem geta ruglað andstæðingana í ríminu og þar á bæ var sagt að lið gætu ekki mætt í svörtum og hvítum treyjum í fyrri hálfleik en bláum og hvítum í þeim síðari.

Bjarni Guðjónsson, þjálfari KR, segist sjá hina frægu KR treyju fyrir framan sin þegar hann er spurður um sitt álit.

„Þessi búningur er svartur og hvítur, alveg eins og hann á að vera. Okkur er annt um það sem við erum að gera hér í KR og við förum ekki í margra mánaða feril með einum stærsta íþróttavöruframleiðanda heims til að fá bláan og hvítan búning, það segir sig sjálft. Ef búningurinn verður dæmdur ólöglegur þá mun KR trúlega spila í appelsínugulu í sumar því búningurinn frá því í fyrra er með öðrum styrktaraðilum.“

Kristinn Kjærnested formaður knattspyrnudeildar KR segir að KR fjölskyldan sé samheldin og því væri búið að ákveða að opna KR heimilið snemma í dag.

„KR rendurnar eru tákn KR og nýi búningurinn verður því til sýnis í KR-heimilinu frá morgni til kvölds í allan dag þar sem gestir og gangandi geta komið og skoðað búninginn með eigin augum.“

„Þetta er skandall, KR treyjan á ekki að vera blá …
„Þetta er skandall, KR treyjan á ekki að vera blá og hvít heldur svört og hvít,“ sagði Aron Bjarki Jósepsson varnarmaður KR-inga þegar hann var nýbúinn að sjá nýja búninginn sem KR ætlar að nota í sumar. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert